Það er líka kvennabolti!
Njarðvík hefur löngum verið tengt við þá göfugu íþrótt körfuboltann og það ekki að ástæðulausu. Karlalið félagsins hefur sópað til sín slíkum aragrúa af titlum sl. 20 ár að annað eins er varla sambærilegt í boltagreinum á Íslandi. Varla liðið ár án þess að einhverjir titlar hafi skilað sér í hús. Kvennakarfan hefur staðið í skugganum af velgengni karlanna og ekki síður af nágrönnum sínum úr Keflavík en rík hefð er fyrir sterkum kvennaliðum þar á bæ. Markviss uppbygging hefur verið að skila sér undanfarin ár hjá UMFN. Sterkir flokkar hafa verið að skila ungum frambærilegum leikmönnum fram á sjónarsviðið og hafa Júlíus Valgeirsson og Ísak Tómasson gert góða hluti undanfarin ár auk fjölda annara. Kvennalið UMFN hefur aldrei náð að festa rótum í Njarðvík. Oftar en ekki hafa komið upp sterk lið en síðan hefur verið slakað á og kvennaboltinn nær horfið. Samfelld þáttaka hefur ekki verið til staðar og því miður hefur UMFN ekki sent kvennalið til leiks þó nokkur tímabil. Keppnistímabilið 1995-96 átti kvennalið UMFN gott tímabil, sigruðu 9 leiki og léku til úrslita í bikarkeppninni við stöllur sínar úr Keflavík. Þokkalegur árangur náðist svo tímabilið 1997 en árið 1998 sendi UMFN ekki lið til leiks í meistaraflokk kvenna! Ungar og efnilegar stelpur voru að koma upp en ekki þótti ástæða að henda þeim fyrir ljónin strax. Árið eftir léku stúlkurnar í efstu deild á ný en enduðu í næst neðsta sæti eftir erfitt tímabil. Sú ákvörðun var tekin að skrá liðið til leiks í 2. deildina og sl tvö tímabil hefur UMFN sigrað hana glæsilega. Á þessari leiktíð hafa stúlkurnar svo mætt til leiks að nýju meðal þeirra bestu og staðið sig með sóma. Liðið hefur sigrað í 3 leikjum en verið að bíta vel frá sér og tekið miklum framförum. Ungar stelpur skipa kjarnann í liðinu en inn á milli eru þó reyndar stelpur sem eru þeim yngri mikilvægar. Sá frábæri þjálfari Ísak Tómasson sagði starfi sínu lausu fyrir jól en hann hefur unnið frábært starf með kvennaboltann í Njarðvík. Einar Jóhannsson tók við en hann hefur mikla reynslu af þjálfun og þekkir vel til stelpnanna. Undir hans stjórn byrjuðu stúlkurnar vel og sigruðu lið KFI í þrem leikjum fyrir vestan nú fyrir skemmstu. Þar tryggðu stelpurnar sér sæti í undanúrslitum Doritos bikarsins og leika þar við Hauka 23. janúar í Ljónagryfjunni kl 20:00. Rúm 19 ár eru síðan UMFN tefldi fram kvennaliði fyrst í úrslitum bikarsins en það var gegn KR en sá leikur tapaðist 56-47 en svo var beðið í 13 ár þartil næsta tækifæri gafst en þá gegn Keflavík árið 1996 en sá leikur tapaðist einnig, 69-40. Leikurinn fór fram í Garði og myndaðist skemmtileg stemming í troðfullu húsi.
Bikarleikurinn gegn Haukum er liði UMFN mikilvægur. Liðið er ungt að árum og ekki slæmur árangur að komast í úrslitaleikinn sjálfann að ótöldu þeirri reynslu sem ungir leikmenn hljóta af slíkum leikjum. Njarðvíkingar eru hvattir til þess að mæta og styðja við bakið á stelpunum. Þær ætla sér stóra hluti og eru komnar til þess að vera!
Höfundur: Örvar Kristjánsson
Bikarleikurinn gegn Haukum er liði UMFN mikilvægur. Liðið er ungt að árum og ekki slæmur árangur að komast í úrslitaleikinn sjálfann að ótöldu þeirri reynslu sem ungir leikmenn hljóta af slíkum leikjum. Njarðvíkingar eru hvattir til þess að mæta og styðja við bakið á stelpunum. Þær ætla sér stóra hluti og eru komnar til þess að vera!
Höfundur: Örvar Kristjánsson