Það er geggjað að fá þetta tækifæri
Átti upphaflega að vera varamaður
Sindri Kristinn Ólafsson er enn einn Suðurnesjamaðurinn sem mun keppa til úrslita í Skólahreysti á morgun. Hann keppir fyrir hönd Myllubakkaskóla í hraðaþrautinni en alls eru 12 skólar sem mæta til leiks í Laugardalshöll annað kvöld. Sindri er 16 gamall og æfir fótbolta með Keflavík. Bæði með 2. og 3. flokki og svo stöku sinnum með meistaraflokknum.
Stóra keppnin á morgun leggst vel í Sindra en hann viðurkennir þó að vera kominn með smá fiðring í magann. Hann segist hafa æft stíft undanfarið og hann vonast eftir því að skólinn bæti sig í öllum greinum. Þegar hann er spurður út í það hverjir gætu hugsanlega sigrað keppnina þá viðurkennir hann að lið Holtaskóla sé líklegt til afreka. „Markmiðið er að gera sitt allra besta, en vinir okkar úr Holtaskóla eru með hrikalega sterkt lið,“ segir Sindri.
Við lögðum svo nokkrar léttar spurningar fyrir Sindra.
Af hverju tekur þú þátt í Skólahreysti?
Það er geggjað að fá þetta tækifæri. Ég átti upphaflega bara að vera varamaður en fékk góðan séns.
Hver er eftirlætis íþróttamaðurinn þinn?
Jordan er sá besti.
Hvaða tónlist kemur þér í gírinn?
Bubbi Morthens klikkar seint.
Hvað færðu þér að borða fyrir Skólahreysti?
Ég fæ mér eitthvað hollt og gott með liðinu.
Áhugamál
Fótbolti, tónlist, körfubolti og margt fleira.