Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Það er eitthvað svo gott við það að vinna Njarðvík í Njarðvík
Miðvikudagur 4. apríl 2012 kl. 10:52

Það er eitthvað svo gott við það að vinna Njarðvík í Njarðvík

- segir Gunnar Stefánsson þegar hann lítur yfir farinn veg



Gunnar Hafsteinn Stefánsson var fyrir síðasta leik Keflavíkur og Stjörnunnar heiðraður fyrir að hafa leikið yfir 500 leiki fyrir Keflavík. Þrátt fyrir að vera aðeins 32 ára gamall hefur Gunnar verið partur af Keflavíkurliðinu í um 17 ár en hans fyrsti leikur í meistaraflokki félagsins var tímabilið 1995-1996 á útivelli gegn Haukum að Strandgötu í Hafnarfirði. Heimasíða Keflavíkur fékk Gunnar til að líta aðeins til baka yfir farinn veg auk þess að svara nokkrum spurningum um einvígið við Stjörnuna.

Segðu okkur aðeins frá þínum fyrsta leik fyrir meistaraflokk Keflavíkur?
Fyrsti leikur var á móti Haukum að Strandgötu í Hafnarfirði, í lok tímabilsins 1995-96. Þá var ég 16 ára pjakkur sem fékk kallið sökum mikilla meiðsla hjá liðinu. Þetta var vægast sagt eftirminnilegur leikur, þar sem Albert Óskarsson hafði farið ansi mikið í taugarnar á erlendum leikmanni þeirra Hauka, Jason Williford að ég held hann hafi heitið. Hann elti Berta niður í klefana í hálfleik og sagði þessa fleygu setningu sem hefur farið manna á milli síðan; "After the game number 8". Það gerðist samt ekkert eftir leikinn, en hann var eftirminnilegur fyrsti leikur engu að síður.

Hver er eftirminnilegasti leikurinn af þessum 500+ leikjum?
Það er eitthvað svo gott við það að vinna Njarðvík í Njarðvík. Einn leikur sem stendur uppúr var ansi skemmtilegur fyrir þær sakir að Njarðvík hafði ekki tapað í Ljónagryfjunni með 10+ stigum í einhver 15 ár, þegar "kjúklinga"liðið 2001-02 mætti á góflið. Við unnum þá með 25 stigum að ég held. Við keyrðum þá í kaf og það sakaði ekki að hafa sett 15-20 stig sjálfur. Þá var líka ansi skemmtilegt fyrir mig persónulega að hafa skorað 20 stig í Evrópukeppninni 2005-06 en þar með komst í ég hóp fárra manna en ég held að aðeins þrír eða fjórir hafi afrekað það fyrir Keflavík.

Hver er eftirminnilegasti titillinn af þeim fjölmörgu sem þú hefur unnið á þessum tíma?
Það er bannað að gera upp á milli barnanna sinna segir einhvers staðar, en ég held að titillinn 2005 hafi verið eftirminnilegastur. Þá vorum við flest allir sem höfðum byrjað á svipuðum tíma, Davíð, Jonni, Sævar, Maggi, Dóri, Arnar og strákarnir sem voru búnir að æfa með mér lengst, Gunni Einars, Elli, Sverrir og náttúrulega snilldar kanar, Anthony Glover og Nick Bradford. Frábær hópur, að sjálfsögðu undir handleiðslu Sigga Ing.

Hverjir eru eftirminnilegustu samherjarnir, bæði af íslensku leikmönnunum og einnig af könunum?
Ég er náttúrulega ótrúlega heppinn með að hafa fengið að æfa með átrúnaðargoðunum mínum, Nonna Kr, Gaua Skúla, Fal Harðar, Kidda Friðriks, Sigga Ing og Alla Óskars. Þetta voru hetjurnar mínar og því ekki skrítið að ég hafi séð stjörnur á hverjum degi á æfingu og sé enn þegar ég hitti þessa menn. Svo eru samtímamenn mínir, sem ég taldi upp áðan, alveg einstaklega vel gerðir drengir. Dóri Karls var náttúrulega minn maður þegar við vorum að byrja og Fannar Ólafs kom beint úr sveitinni. Þeir eru tveir af mínum uppáhalds liðsfélögum enda frábærir drengir og við upplifðum það sama á þessum tíma. Þó menn hafi leitað sér tækifæra annars staðar seinna þá mótuðumst við á sama stað og á sama tíma. Í seinni tíð eru þeir Þröstur, Siggi Þorsteins og Hössi ofarlega, enda frábærir drengir og áttum við góðar stundir saman. Svo eru það pjakkarnir í dag sem eiga hug manns allan. Frábærir strákar í liðinu í dag og ég verð að hrósa þeim fyrir framfarir vetrarins en þeir eru að verða að mönnum blessaðir.

Af könunum er Damon Johnson og Nick Bradford efst skrifaðir hjá mér enda hef ég spilað mest með þeim og þeir hafa skilað miklu til félagsins. Þvílíkir snillingar þar á ferð. Fleiri sem vert er að nefna eru Derrick Allen, einhver sá albesti sem hingað hefur komið, ekki bara á vellinum, heldur mikill öðlingur líka. Tony Glover, risavaxna barnið sem allir hræddust, var líka skemmtilegur karakter. Allir þessir kallar er eftirminnilegir, hver á sinn hátt.

En eins og þessi langa þula sýnir þá get ég ekki valið mér einhvern eftirminnilegri liðsfélaga en annan. Ætli Keflavík hafi ekki bara verið eftirminnilegasti samherjinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

En aðeins að einvíginu við Stjörnuna, á Keflavík ekki möguleika á sigri í oddaleiknum?
Jú!

Hvað þarf til að Keflavík fari með sigur af hólmi?
100% keyrsla allan tímann og gefa allt í verkefnið. Ég gæti haldið svona áfram en þegar öllu er á botninn hvolft þá þurfum við að vilja sigurinn meira en hinir og það á við allt frá Sigga og Jonna, 1. til 12. manns á skýrslu og til allrar stúkunnar. Þetta er bara það sem Keflavík snýst um. Þetta er það sem ég ólst upp við, þ.e. hroki, vilji og þor til að gera það sem þarf til að sigra!

Nánar á Keflavik.is