„Það er akkúrat ekkert að gerast hjá Keflavík“
„Það er akkúrat ekkert að gerast hjá Keflavík,“ sagði Hólmar Örn Rúnarsson, fyrirliði eftir niðurlægjandi tap gegn Breiðabliki í Keflavík í kvöld.
Þetta var svar fyrirliðans við spurningunni um hvað væri að gerast hjá Keflavíkurliðinu eftir slaka frammistöðu liðsins tvo leiki í röð.
„Við náðum þokkalegu spili frammi en hlutirnir eru bara alls ekki að detta hjá okkur. Nú verðum við bara að girða okkur í brók og mæta grimmir til leiks. Það er vika í næsta leik og við munum nota þann tíma vel til að finna okkar góða leik,“ sagði Hólmar.
Kristján þjálfari sagðist hreinlega ekki eiga svör þegar hann var spurður út í hörmulegt gengi í síðustu tveimur leikjum, átta mörk í mínus og fyrsta tapið á heimavelli staðreynd. „Við erum á eftir í öllum návígum, þorum ekki að sækja á mark andstæðinganna og erum ekki að vinna boltann í vörninni. Þetta er einhvern veginn algerlega vonlaust og ég skil þetta bara ekki“.
Er andlega hliðin að bresta?
„Við eigum að vera sterkir þar en við þurfum vissulega að taka okkur saman í andlitinu. Eigum við ekki að vona að slæmi kaflinn sé búinn. Við munum fínpússa okkar leik og mæta ferskir í næsta leik,“ sagði þjálfarinn.
Þess má geta að svar Hólmars vakti mikla kátínu hjá knattspyrnusérfræðingum Stöðvar 2 sports í þættinum Pepsi mörkin og var valið sem annað af tveimur atvikum dagsins.
Guðmundur Steinarsson og félagar hans þurfa að taka sig saman í andlitinu. Að ofan má sjá Hólmar Örn í baráttunni. VF-myndir/Páll Orri.