„Þá kem ég bara á hækjunum og næ metinu aftur“
Stigin 54 sem Páll Axel Vilbergsson skoraði í leik gegn Tindastóli á sunnudag er stigamet hjá Íslendingi í efstu deild en metið átti Marvin Valdimarsson eða 51. Páll Axel hefur því skorað flest stig allra Íslendinga í venjulegum leiktíma í efstu deild. Valur Ingimundarson skoraði einnig 54 stig í leik árið 1988 en sá leikur fór í framlengingu. Þessir þrír eru því einu Íslendingarnir sem hafa skorað yfir 50 stig í úrvalsdeildinni, að minnsta kosta svo staðfest sé.
Á körfuboltasíðunni www.karfan.is er þeirra spurningu velt upp hvort metið sé 57 stig en Njarðvíkingarnir Kristbjörn Albertsson, fyrrum körfuboltadómari til margra ára, og Gunnar Þorvarðarson, fyrrum leikmaður telja líklegt að Þórir Magnússon eigi það met en hann lék með KFR sem síðar varð Valur. Þetta er hins vegar óstaðfest.
Sjá umfjöllun Körfunnar hér
Páll Axel er í viðtali við heimasíðu Grindavíkur, þar sem hann segir þetta um þennan ótrúlega leik:
„Ég átti alls ekki von á því að ég yrði svona heitur. Ég var mjög stífur fyrir leikinn og var einmitt að hugsa fyrir leikinn að ég myndi ekkert geta. Þetta var bara sunnudagur og þá er maður bara að slugsa og horfa á sjónvarpið. Ég varð því stífur og meira að segja það stífur að ég ákvað að labba í íþróttahúsið til þess að liðka mig," sagði Páll Axel við Fréttablaðið sem gerði sér þó grein fyrir að hann þyrfti að standa sig í leiknum.
„Það eru svolítil meiðsli í okkar hópi þessa dagana þannig að ég ákvað að láta til mín taka og leiða liðið í leiknum. Svo bara datt eitthvað inn hjá mér."
Páll Axel hitti úr 10 af 18 þriggja stiga skotum sínum í leiknum, 8 af 11 tveggja stiga skotum fóru niður og hann kláraði 8 af 12 vítaskotum sínum.
„Ég var alls ekkert meðvitaður um þetta met Vals. Ég hafði bara ekki hugmynd um það. Ef ég hefði vitað af þessu og langað mikið í metið þá hefði ég skorað undir lokin. Þá voru kjúklingarnir komnir inn og maður var að leyfa þeim að skjóta," sagði Páll Axel. „Það er líka fínt að deila þessu með Val. Óþarfi að taka þetta af honum. Ef honum þykir mjög vænt um metið þá má hann bara að eiga það," sagði Páll léttur.
Stórskyttan úr Grindavík gerir ekki ráð fyrir því að þetta met sitt muni standa lengi.
„Það eru svo svakalega gráðugir guttar að koma upp. Þeir verða búnir að skora 60-70 stig í leik áður en langt um líður. Þá kem ég bara aftur á hækjunum og næ metinu aftur," sagði Páll Axel á léttum nótum.