Tekst Grindavík að komast í úrslit í kvöld?
Í kvöld ræðst það hvort Grindavík eða ÍR mæti Snæfelli í Laugardalshöll síðar í þessum mánuði í úrslitum Subwaybikarsins karla í körfuknattleik. Yfirburðasigur gegn Keflavik um helgina tryggði Snæfelli sæti í úrslitunum.
Grindvíkingar hafa verið á mikilli siglingu undanfarið og er greinilega góð stemmning í liðinu. Í síðustu leikjum hafa þeir sigrað tvö af efstu liðum deildarinnar, Njarðvík og KR og eru til alls líklegir. Ef tekið er mið af stöðunni í deildinni verða Grindvíkingar að teljst sigurstranglegri fyrir leik kvöldsins.
Leikur Grindavíkur og ÍR hefst kl. 19:15 í Röstinni í Grindavík í kvöld.
Í Iceland Express deild karla mætast KR og Njarðvík í Vesturbænum kl. 19:15 í sextándu umferð deildarinnar. Spennan í toppbaráttunni er gríðarleg. KR-ingar eru efstir með 24 stig en síðan koma fjögur lið með 22 stig: Snæfell, Stjarnan, Keflavík og Njarðvík. Grindvíkingar eru skammt undan með 20 stig.