Teitur Örlygsson: Hefði viljað meira út úr tímabilinu
Njarðvíkingar eru komnir í sumarfrí eftir að hafa legið 2-0 gegn bikarmeisturum Snæfells í 8-liða úrslitum Iceland Express deildar karla í körfuknattleik. Liðin mættust í sínum öðrum leik í Stykkishólmi í gærkvöldi þar sem Hólmarar fóru með 80-66 sigur eftir sterkan endasrpett. Teitur Örlygsson þjálfari Njarðvíkinga sagði það aldrei vera gaman að láta slá sig út úr úrslitakeppninni en kvaðst engu að síður ánægður með strákana sína.
,,Það var þung brúnin á mínum mönnum eftir leik, svona eins og búast mátti við því það er aldrei gaman að láta slá sig út,” sagði Teitur en í ár voru það Snæfellingar sem slógu Njarðvík bæði úr deildar- og bikarkeppninni.
,,Við vorum inni í leiknum þangað til um þrjár mínútur voru eftir og þá missum við boltann klaufalega og fáum þrist í andlitið og á skömmum tíma fór munurinn úr fimm stigum í tólf. Við áttum t.d. kost á því að komast yfir í fjórða leikhluta en Snæfell er of gott lið til þess að gera mistök á móti þeim og þeir áttu skilið að komast áfram,” sagði Teitur sem á von á því að töluverðar breytingar verði á Njarðvíkurliðinu.
,,Ég hefði kosið að hafa þetta fyrsta ár mitt með Njarðvík öðruvísi og það verða greinilega breytingar á liðinu núna. Annars er ég hæstánægður með strákana þó okkur hafi ekki tekist að finna stöðugleika í okkar leik í vetur,” sagði Teitur og viðurkenndi að það hefði verið of stór biti að missa Friðrik Stefánsson úr hópnum.
,,Það eru ekki mörg lið sem hafa efni á því að missa aðal framherjann sinn. Ef við horfum í kringum okkur hefur ekkert lið efni á því í þessari jöfnu keppni. Við misstum líka Egil Jónasson sem var núna á lokasprettinum á öðrum fætinum,” sagði Teitur sem hafði fulla trú á því að ef Friðrik hefði verið með Njarðvíkingum í úrslitakeppninni hefðu Njarðvíkingar farið alla leið.
,,Við lékum vel á lokasprettinum í deildinni og þar var Friðrik að leika gríðarlega vel. Annars hefði ég vissulega viljað meira út úr tímabilinu,” sagði Teitur sem fyrir þessa leiktíð gerði tveggja ára samning við Njarðvíkinga.
Við fengum Teit til þess að rýna í framhaldið og sagði hann ómögulegt að spá fyrir um hvaða lið myndi taka Íslandsmeistaratitilinn. ,,Þetta er svo spennandi en það eru nokkur lið sem gera tilkall í bikarinn. Það er ekkert lið í þessu til að vera bara með og brjáluð barátta í gangi svo það verður gaman að fylgjast með framhaldinu.”
Teitur segir að gera megi ráð fyrir töluverðri uppstokkun í Njarðvíkurliðinu fyrir næstu leiktíð og kvaðst þjálfarinn ætla að nota sumarið í að skerpa á sjálfum sér í þjálfarasætinu.
,,Ég var nýliði sem þjálfari í deildinni núna og fékk hellings reynslu úr þessu fyrsta ári. Undirbúningstímabilið okkar var reyndar ömurlegt og þetta verður gert öðruvísi fyrir næstu leiktíð og ég kem reynslunni ríkari inn í næsta tímabil. Það þýðir ekkert að leggja árar í bát enda spennandi tímar framundan í Njarðvík þar sem allt bendir til þess að um kynslóðaskipti í liðinu sé að ræða,” sagði Teitur Örlygsson þjálfari Njarðvíkinga.
VF-Mynd/ [email protected]– Reynsluboltarnir Brenton Birmingham og Teitur Örlygsson.