Teitur mun aðstoða Friðrik
Tilkynnt á lokahófi UMFN.
Teitur Örlygsson verður aðstoðarþjálfari Friðriks Inga Rúnarssonar í Njarðvík. Þetta var tilkynni á lokahófi Njarðvíkinga rétt áðan og kemur fram á karfan.is. Friðrik Ingi var á dögunum ráðinn þjálfari bæði karla- og kvennaliðs félagsins og nú er það komið á daginn að Teitur verður honum til aðstoðar.
Teitur hefur síðustu ár alið manninn í Garðabæ við góðan orðstír og m.a. stýrt liðinu í tvígang inn í lokaúrslit og tvívegis gert Stjörnuna að bikarmeisturum. Teitur verður Friðriki til aðstoðar með karlalið félagsins og ekki í fyrsta sinn sem hann mun stýra Njarðvíkingum við annan mann en það gerði hann áður með Friðriki Ragnarssyni.
Gullkynslóðin í Njarðvík hefur hreiðrað um sig við stýrið í Ljónagryfjunni. Friðrik Ingi snýr aftur og fær með sér Teit Örlygsson, í formannsstól situr Gunnar Örn Örlygsson og aðrir stjórnarmenn eru t.d. Hreiðar Hreiðarsson, Jóhannes Albert Kristbjörnsson og Kristinn Einarsson, allir eiga þeir það sammerkt að hafa orðið Íslandsmeistarar með Njarðvíkingum.
Eflaust bíða margir spenntir eftir því að sjá samstarf Friðriks Inga og Teits. Friðrik hefur ekki þjálfað í um það bil átta ár en Teitur hefur verið á meðal mest áberandi þjálfara í íslenska boltanum síðustu tímabil.
Hér má sjá viðtal við Gunnar Örlygsson, formann körfuknattleiksdeildar UMFN og bróður Teits, sem fréttamaður karfan.is tók rétt áður en lokahófið hófst.