Teitur: Keflvíkingar geta farið að grilla
Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar er alls ekki sáttur við dóminn sem Fannar Helgason hlaut nú fyrir stundu og telur vera mikið ósamræmi í tveimur málum sem komu upp í rimmu Keflvíkinga og Stjörnunnar sem endaði með sigri Stjörnunnar 2-1. „Það er stórkostlegt ósamræmi í þessu, við bara skiljum þetta ekki,“ sagði Teitur í samtali við Víkurfréttir.
„Við erum búnir að vera að kljást við tvö lið alla vikuna en nú er bara eitt lið eftir. Keflvíkingar geta farið að anda rólega. Þeir geta farið að grilla en það er körfuboltaleikur hjá okkur í kvöld,“ sagði Teitur en hann telur að Stjörnumenn muni ekki áfrýja dómnum.
En telur Teitur að um óviljaverk hafi verið að ræða hjá Fannari? „Ég veit það ekki. Þetta þarf ekki að vera viljandi. Valur hangir í honum þegar þeir falla í gólfið en Fannar fer óvarlega með hendurnar. Ég bjóst svo sem við þessum dómi en ég skil ekki þetta ósamræmi milli dóma,“ en þá á hann við atvik þegar Magnús Gunnarsson sveiflaði olnboganum í andlit Marvins Valdimarssonar í öðrum leik liðanna. Þá losnaði um tönn hjá Marvin og Teitur segir að um mun þyngra högg hafi verið að ræða þar, og alvarlegra. Það mál var látið falla niður.
Hér að neðan má lesa úr dómi aganefndar:
Samkvæmd nýgengnum úrskurði aganefndar í sambærilegu máli Magnúsar Þórs Gunnarssonar leikmanns Keflavíkur hafi aganefndi ekki þótt ástæða til að víkja frá þeirri meginreglu að breyta ákvörðun dómara. Í því tilviki hafi ákvörðun dómara verið nægjanleg, sem var óíþróttamannsleg villa en ekki brottrekstrarvilla.
Þá kemur fram í röksemdarfærslum Stjörnunnar að Valur Valsson, leikmaður Keflavíkur, hafi haldið um hendur
kærða á þeim tímapunkti sem olnboginn virðist rekast óviljandi í hann. Hafi fyrrgreindur leikmaður Keflavíkur togað hönd kærða til sín og orsaka þá snertingu. Af myndbandsupptöku sé mjög óljóst hvort um brot hafi verið að ræða af hálfu kærða eða baráttan um boltann sem orsakar hafi umrædda snertingu milli leikmanna.
Einnig mótmælir Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar því að hægt sé að vísa til 37.1.1 greinar leikreglna í körfuknattleik frá 2010 einsog gert er í kærunni. Engar afleiðingar hafi orðið af því að olnbogi kærða virðist hafa rekast í leikmann Keflavíkur í þessu tilviki, ólíkt því sem gerst hafi í sambærilegu atviki Magnúsar Þórs Gunnarssonar í máli nr. 27/2011-2012, sem aganefndin taldi ekki ástæðu til að úrskurða leikbann í, þrátt fyrir að tönn hafi brotnað í Marvini Valdimarssyni, leikmanni Stjörnunnar, með tjón upp á hundruð þúsunda. Ennfremur segir í greinargerð Stjörnunnar að félagið hafi brugðist við hinu kærða atviki með því að eiga samtal við kærða og áréttað mikilvægi þess að gæta að því að olnbogar sveiflist ekki í baráttu um knöttinn, auk þess sem leikmaðurinn hafi orðið að gefa eftir fyrirliðastöðu sína.
Einnig hafi leikmaðurinn beðið leikmann Keflavíkur afsökunar og ítrekað að atvikið hafi verið óviljaverk og á engan hátt hafi verið ætlunin að meiða leikmanninn. Loks vísar Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar því á bug að hið kærða atvik sé sambærilegt við þau atvik sem stjórn Körfuknattleiksdeild Keflavíkur vísar til í kæru sinni varðandi leikmennina AJ Moye og Margréti Köru Sturludóttir, þar sem um greinilegan ásetning hafi verið að ræða.