Teitur: Höfum ekki efni á að rífa kjaft
Stóri leikurinn er í kvöld
Það þarf ekkert að fjölyrða um hversu mikilvægur leikur Keflvíkinga og Njarðvíkinga í Domino’s deildinni í körfubolta er en hann verður í TM-höllinni í. Það eru fáir leikir eins þýðingarmiklir í íslenskum hópíþróttum eins og einmitt þessi. Keflvíkingar eru á toppi deildarinnar og hefur stöðugleikinn hjá liðinu verið til fyrirmyndar. Þeir eru með heitasta Kana landsins og liðsheildin er gríðarlega sterk sem og samheldnin.
Njarðvíkingar eru loksins orðnir fullmannaðir þegar febrúarmánuður er rétt handan við hornið. Þeir hafa verið í basli eftir Kanaskipti og nýlega kom nýr leikstjórnandi til liðsins. Njarðvíkingar fengu Jeremy Atkinson til liðs við sig rétt í tæka tíð fyrir slaginn gegn Keflavík. Njarðvíkingar kannast vel við kauða sem reyndist þeim erfiður þegar hann lék með Stjörnunni í fyrra. Í fyrstu umferð úrslitakeppninnar skoraði hann tæp 27 stig í leik gegn þeim grænu. Hann tók auk þess 12 fráköst í leik og bauð upp á 32 framlagsstig í leik.
Teitur Örlygsson aðstoðarþjálfari liðsins segist himinlifandi með að fá Atkinson til liðsins og telur að hann komi til með að styrkja það töluvert. Teitur þekkir þessa stóru leiki vel og þeir gerast vart stærri en gegn Keflavík. „Það væri ofboðslega gaman að gera Keflvíkingum skráveifu. Það myndi gera mikið fyrir móralinn hjá okkur þó svo að þessi tvö stig séu alveg jafn mikilvæg og hver önnur,“ segir Teitur en hann telur sína menn vera tilbúna í bardagann.
„Keflavík er eitt besta sóknarliðið á landinu og við verðum að stoppa þeirra lykilmenn. Ég held að hæfileikarnir séu til staðar í okkar liði en menn verða að leggja sig fram af öllum mætti, þá oftar en ekki gerast góðir hlutir. Ég efast ekki eitt augnablik um að við verðum tilbúnir á föstudaginn.“
Það vill oft verða þannig að skot ganga manna á milli fyrir þessa leiki. Keflvíkingar hafa verið duglegir að notast við samskiptamiðilinn Snapchat þar sem þeir skjóta létt á Njarðvíkinga.
„Keflvíkingar eru byrjaðir að skjóta á okkur á samfélagsmiðlunum og það er mjög skemmtilegt. Við viljum láta verkin tala eins og staðan okkar er. Við höfum ekkert efni á því að rífa kjaft svona eins og Keflavík er að gera í dag og þegjum því bara þunnu hljóði og mætum og gefum þeim góðan leik.“