Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Teitur: Algjört andleysi og baráttan í lágmarki
Mánudagur 3. desember 2007 kl. 15:01

Teitur: Algjört andleysi og baráttan í lágmarki

Njarðvíkingar máttu sætta sig við ósigur gegn Skallagrím í Borgarnesi í gærkvöldi en lokatölur leiksins voru 90-82 Borgnesingum í vil. Ósigurinn í gær var fjórði ósigur Njarðvíkinga á leiktíðinni og er þetta versta byrjun liðsins á þessari öld, þ.e. síðustu sjö tímabil. Njarðvík hefur í fyrstu níu umferðunum unnið fimm leiki en tapað fjórum leikjum. Víkurfréttir náðu tali af Teiti Örlygssyni þjálfara Njarðvíkinga og sagði hann það ljóst að með svona drasl spilamennsku eins og átti sér stað hjá liðinu í gær þá væri Njarðvíkurliðið bara miðlungslið.

 

Ósigur gegn Skallagrím í gær. Þú sagðir í samtali við Morgunblaðið að þú sæir ekki fram á annað en að Njarðvík þyrfti að bæta við sig öðrum erlendum leikmanni. Eruð þið að skoða viðbót við liðið?

Ef frammistaðan í þessum leik réði þá er ekki annað í stöðunni en að styrkja liðið. Ég sagði þetta stuttu eftir leik og miklar tilfinningar í gangi og við erum ekki að fara styrkja liðið. En samt sem áður var virkilega dapurt að horfa á liðið í gær. Andleysið algjört og baráttan í lágmarki. Þó ber að minnast á Gumma (Guðmund Jónsson) og Sverri (Sverrir Þór Sverrisson) sem léku vel í gær. Aðrir voru langt frá sínu besta og sumir leikmenn sem byrjendur.

 

Hafa þessar níu fyrstu umferðir verið ásættanlegar?

Auðvitað viljum við vinna alla leiki eins og öll önnur lið. Við erum á svipuðum slóðum og okkur var spáð í upphafi af sérfræðingunum. Hvort ég sé sáttur við það þá er svarið nei. Ég tel okkur geta betur og við ætlum okkur ofar í töfluna. Þó er ljóst að með svona drasl spilamennsku eins og i gær þá verðum við bara miðlungslið.

 

Hvaða þætti þarf að laga í Njarðvíkurliðinu ef það á að ná ofar í töfluna?

Við verðum að ná meiri stöðugleika. Það gerist hjá okkur of oft að menn mæti ekki með hugarfarið í lagi. Góðir leikmenn eru alltaf klárir og drífa liðið með sér þegar á móti  blæs, sérstaklega á það við í ár þegar öll lið virðast geta unnið hvort annað.

 

Árangur Njarðvíkurliðsins í fyrstu níu umferðunum á hverri leiktíð á nýrri öld:

 

Epson deildin 2000-2001

Sigur-tap

6-3

 

Epson deildin 2001-2002

Sigur-tap

7-2

 

Intersport deildin 2002-2003

Sigur-tap

6-3

 

Intersport deildin 2003-2004

Sigur-tap

7-2

 

Intersport deildin 2004-2005

Sigur-tap

8-1

 

Iceland Express deildin 2005-2006

Sigur-tap

8-1

 

Iceland Express deildin 2006-2007

Sigur-tap

7-2

 

Iceland Epxress deildin 2007-2008

Sigur-tap

5-4

 

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024