Teitur á tímamótum
Kominn aftur í heimahagana
Körfuboltaþjálfarinn Teitur Örlygsson hefur látið á sér bera á nýjum vettvangi að undanförnu. Teitur er á lista hjá Samfylkingunni og óháðum fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar í Reykjanesbæ, en þar skipar hann 11. sæti. Teitur sagði skilið við Stjörnuna á dögunum þar sem hann hafði þjálfað körfuboltalið félagsins í tæp sex ár. Nú er hann kominn á heimaslóðir í Njarðvík, þar sem hann verður aðstoðarþjálfari karlaliðs félagsins. Hinn sigursæli körfuboltamaður sér ekki fram á frama í stjórnmálum í nánustu framtíð en útilokar þó ekkert.
Mistök að hefja þjálfaraferilinn hjá Njarðvík
Teitur átti góðar stundir hjá Stjörnunni. Þar vann hann tvo bikarmeistaratitla og kom liðinu m.a. tvisvar alla leið í úrslit. „Maður skilur við þetta stoltur. Þetta var æðislegur tími og mikill skóli fyrir mig,“ segir Teitur. Hann telur að mikill munur sé á honum sem þjálfara nú og þegar hann þjálfaði síðast hjá Njarðvík árið 2008.
„Það er gjörólíkt. Ég held að það hafi verið mistök hjá mér að byrja þjálfaraferilinn í Njarðvík. Mig skorti bæði reynslu og sjálfstraust sem þurfti með það reynda lið sem ég hafði þá. Tækifærið sem ég fékk hjá Stjörnunni var einmitt það sem ég þurfti. Ef Stjarnan hefði boðið mér 2000 krónur í mánaðarlaun þá hefði ég tekið því,“ segir Teitur í léttu gríni. „Það er náttúrulega bara frábært að vera kominn heim í Ljónagryfjuna. Mikil gleði, ekki síst hjá börnunum mínum sem eru öll miklir Njarðvíkingar,“ bætir hann við.
Menn eiga ekki að vera of lengi á sama stað
Nú verður hann Friðriki Inga Rúnarssyni innan handa sem aðstoðarþjálfari karla- og kvennaliðs Njarðvíkinga. En er ekkert erfitt að lækka svona í tign? „Nei alls ekki. Frikki verður þarna við stjórnvölinn en ég mun koma með eitthvað til borðsins sem ég er góður í. Þeir segja að betur sjái fjögur augu en tvö.“ Teitur ætlaði fyrst um sinn að taka sér frí frá körfuboltanum enda orðinn mikill tími sem fer í að aka Reykjanesbrautina oft í viku og mikill tími fjarri fjölskyldunni. „Ég ætlaði mér að taka mér frí frá þessu „24/7“ starfi aðalþjálfarans en svo datt þetta bara í hendurnar á mér og hentaði svona fullkomlega. Það var komið að leiðarlokum hjá mér hjá Stjörnunni. Ég tel að menn eigi ekki að vera of lengi á sama stað. Það má alltaf læra eitthvað nýtt af nýjum þjálfurum og það hafa allir gott af smá breytingum.“
Vilja í baráttu þeirra bestu
Nú er sumarfrí í körfuboltanum og Njarðvíkingar leitast eftir því að styrkja lið sitt. „Okkur langar að verða samkeppnishæfir og vera í baráttu þeirra albestu aftur.“ Stefnan sú er tekin var fyrir rúmum þremur árum, að byggja liðið upp á ungum heimamönnum, hefur vegnast ágætlega en Njarðvíkingar léku til undanúrslita núna í ár gegn Grindvíkingum. „Sú stefna var farin á sínum tíma til þess að laga fjárhaginn sem var kominn í óefni. Stjórn síðustu ára hefur tekist vel til þar. Við teljum okkur þurfa að styrkja okkur aðeins til þess að vera meðal þeirra bestu. Það þarf ekki mikið til enda góður kjarni til staðar sem er nú árinu eldri.“
„Þegar mér var boðið að taka sæti þá tók ég bara númer 11, það hefur verið lukkunúmerið mitt í gegnum tíðina og reynst mér vel“
Kosningar og körfubolti á kaffistofunni
Teitur rekur fyrirtæki ásamt bræðrum sínum Gunnari og Sturlu. Hann segir þá hafa verið afar skilningsríka hvað varðar þjálfunina enda þekki þeir vel til körfuboltans og áhuginn sé mikill hjá þeim bræðrum. „Hingað á skrifstofuna koma margir gestir og ræða körfuboltann.“ Það er ekki eina umræðuefnið sem ber á góma hjá þeim bræðrunum en stjórnmálin skipa þar stóran sess. Teitur var á árum áður flokksbundinn Sjálfstæðisflokknum en sagði sig úr flokknum fyrr á árinu. Hann segir ástæðuna vera landsmálapólitík. Á þeim tíma hafði hann ekki hugsað sér að blanda sér í bæjarmálin. En eins og í körfuboltanum var leitað til Teits og nokkrir flokkar höfðu samband við hann í þeirri von að hann myndi taka sæti á lista fyrir komandi kosningar. „Mér fannst þetta eiga vel við mig. Þarna var fólk sem var búið að sitja í bæjarstjórn. Maður fékk innsýn og svör við spurningum sem maður hafði sjálfur. Það varð þess valdandi að ég ákvað að fara þessa leið. Teitur hefði getað verið ofar á lista en hann segist ekki vera tilbúinn til þess að setjast í bæjarstjórn. „Kannski næst. Þegar mér var boðið að taka sæti þá tók ég bara númer 11, það hefur verið lukkunúmerið mitt í gegnum tíðina og reynst mér vel,“ segir Teitur sem skartaði því númeri á keppnistreyju sinni nánast alla tíð.
Umhugað um Hafnargötuna og umhverfið
Teitur segir að það sé of snemmt að segja til um hvort hann láti meira að sér kveða á pólitískum vettvangi þegar fram líða stundir. „Ég ætla ekki að taka neina ákvörðun um það að svo stöddu. Núna finnst mér bara vera kominn tími á breytingar hér í bænum.“ Umhverfismál eru Teiti ofarlega í huga en hann vill að vitundarvakning verði í þeim efnum. „Það er búið að taka til í okkar umhverfi undanfarin ár. Við þurfum þó að gera betur en mörg bæjarfélög eru langt á undan okkur t.d. í sambandi við flokkun á sorpi.“ Fyrirtæki þeirra Örlygsbræðra stendur við Hafnargötu og þar vill Teitur sjá breytingar. „Þar er hjarta bæjarins og mér finnst að við eigum að geta gert mikið þar til þess að efla verslun og menningu. Þannig að ungt fólk geti hugsað sér að kíkja niður í bæ í göngutúr og taki þannig þátt í mannlífinu,“ en Teitur hefur nokkrar hugmyndir um hvernig megi breyta þessum hlutum. Honum er umhugað um þessa hluti sem gætu hugsanlega stuðlað að frekari ferðamennsku í Reykjanesbæ. „Ef við fengjum fólk til þess að ganga um götuna okkar, þá tel ég að það sé fyrsta skrefið að því að verslun og þjónusta fari að aukast hérna. Það getur orðið til þess að fólkið í bænum verði virkilega stolt af Hafnargötunni. Ef miðbærinn er aðlaðandi þá myndi það hugsanlega fréttast til ferðamanna sem koma hingað í flugstöðina okkar,“ segir Teitur að lokum.