Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Tap þegar dollan fór á loft í Röstinni
Fimmtudagur 15. mars 2012 kl. 21:55

Tap þegar dollan fór á loft í Röstinni



Snæfellingar náðu að spilla gleðinni fyrir Grindvíkingum í kvöld þegar þeir gulklæddu fengu afhendan deildarmeistaratitilinn í Iceland Express-deild karla í körfubolta. Lokatölur urðu 89-101 fyrir Snæfell og leiddu Snæfellingar lengi vel nokkuð örugglega. Giordan Watson, leikstjórnandi Grindvíkinga var fjarri góðu gamni og Grindvíkingar áttu í mesta basli með pressuvörn Snæfellinga í leiknum. Vörnin hefur verið eitt helsta aðalsmerki Grindvíkinga á tímabilinu og í þessum leik var hún ekki burðug eins og lokatölur gefa kannski til kynna. Í vetur hafa Grindvíkingar verið að halda andstæðingum sínum undir 80 stigum í flestum leikjum.

„Við vorum með ákveðið plan í vörninni og um leið og menn stigu inn á völlinn þá fór það plan út um gluggann,“ sagði Helgi Jónas Guðfinnsson þjálfari Grindvíkinga í leikslok. Hann var að vonum ósáttur við tapið sem var það þriðja í deildinni hjá Grindvíkingum. „Ég ákvað að prófa svæðisvörn á tímabili í leiknum til þess að athuga hvort ákveðnir eiginleikar væru til staðar hjá liðinu en þeir eiginlegar voru einfaldlega ekki til staðar,“ en þetta var í fyrsta sinn sem Grindvíkingar leika svæðisvörn á tímabilinu. Þrátt fyrir að vera án leikstjórnandans Watson þá var Helgi á því að þeir hefðu getað gert betur. „Við eigum að geta leyst þessa pressu frá þeim betur og gerum það á köflum vel, en þegar menn eru að koma inn á og eru ekki tilbúnir þá er það ekki að gera sig.“

Helgi kvaðst ánægður með að fá dollu í hús en hann vill fara í hvern leik og ná í sigur. „Sem þjálfari þá setur maður upp ákveðin viðmið sem maður ætlast til að leikmenn fylgi, þess vegna verður maður fúll þegar það gengur ekki eftir. Það er allt í lagi að tapa en ég sætti mig ekki við að tapa svona,“ sagði Helgi.

Grindvíkingar hafa á gríðarlega sterkum leikmönnum að skipa og þegar blaðamaður spurði Helga hvort hann teldi að leikmenn hans ættu eitthvað inni, þá kvaðst hann ekki vita til þess. „Ef svo er þá hafa þeir tækifæri til þess að sýna það núna.“ Senn fer að líða að úrslitakeppni og Helgi bíður spenntur eftir að hún hefjist. „Ég hlakka til og er spenntur. Við eigum verk að vinna og áfram skal haldið,“ sagði Helgi Jónas að lokum.

Bullock var bestur hjá gulum í kvöld en gamla kempan Páll Axel sýndi einnig flott tilþrif og það eru sannarlega góð tíðindi fyrir Grindvíkinga svona rétt fyrir úrslitakeppni.

Grindavík: J'Nathan Bullock 25/13 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 18/5 fráköst, Þorleifur Ólafsson 13, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 7/9 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 7/7 fráköst, Ólafur Ólafsson 6/5 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 6/5 fráköst, Ryan Pettinella 4/4 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 3









Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024