Tap í kuldanum í Keflavík
Kuldaboli beit í kinnar þeirra áhorfenda sem lögðu leið sína á Nettó-völlinn í Keflavík í kvöld þar sem fyrsti leikur þriðju umferðar Pepsi-deildar karla fór fram. Keflvíkingar mátt sætta sig við 1-0 tap gegn Stjörnunni eftir mikinn baráttuleik sem einkenndist af hörðum tæklingum og návígjum.
Eina mark leiksins kom á 5. mínútu leiksins. Ómar Jóhannsson markvörður Keflvíkinga kom í úthlaup á móti Kennie Chophart sem var sloppinn einn í gegn. Kennie pikkaði boltanum fram hjá Ómari og þeir lentu saman, vítaspyrna var dæmd og Halldór Orri Björnsson skoraði örugglega úr henni. Stjörnumenn voru beittari í upphafi leiks og Keflvíkingar voru augljóslega pirraðir eftir vítaspyrnudóminn. Heimamenn vinna sig svo inn í leikinn og Guðmundur Steinarsson hefði átt að jafna leikinn fyrir Keflvíkinga en hann komst einn inn fyrir vörn Stjörnumanna en nýtti færi sitt afar illa.
Keflvíkingar hefðu með heppni getað fengið stigin úr leiknum en eins og áður segir var þetta fyrst og fremst baráttuleikur þar sem mikið var um miðjumoð. Þar naut Einar Orri Einarsson sín vel og hann var harður í horn að taka á miðsvæðinu. Arnór Ingvi var sprækur framan af leik en annars var enginn áberandi góður á vellinum í dag.
„Við spiluðum ágætlega og erum að fáum á okkur eitt aumasta víti sem ég hef séð. Svona er þetta, dómarar gera mistök eins og við,“ sagði Ómar Jóhannsson markvörður Keflvíkinga að leik loknum. „Það er ekkert gefið eftir í baráttunni og það er stemning í hópnum, það er vonandi að smita frá sér úr í bæ. Ef fólk sér að við erum að leggja okkur 100% fram þá vonandi mætir það áfram að styðja okkur,“ en fjölmargir mættu á völlinn þrátt fyrir kuldann, en tveim leikjum var frestað í Reykjavík. „Guð minn almáttugur. Ég hef spilað í mun verra veðri en þetta, veðrið hlýtur að hafa verið mun verra í Reykjavík,“ sagði Ómar sem segir margt jákvætt hægt að taka frá leiknum í kvöld. „Ég þurfti varla að verja skot og mér fannst við stjórna þessu vel eftir því sem leið á leikinn. Þetta datt ekki með okkur en við hefðum getað nýtt okkar færi betur, það þarf kannski að laga.“
„Menn voru að leggja sig fram og það er hrikalega sárt að tapa þessu. Verðið var kannski ekki að hjálpa en baráttan var mikil í leiknum og ekki jafn mikið um fótbolta. Með smá heppni hefðum við getað snúið þessu okkur í hag,“ sagði fyrirliðinn Haraldur Guðmundsson eftir leik.
Einar Orri í baráttunni eins og svo oft í leiknum.
Guðmundur setti boltann framhjá í dauðafæri.
Jóhann B. Guðmundsson átti lipra spretti í leiknum.
VF-Myndir Páll Orri Pálsson