Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mánudagur 17. júlí 2000 kl. 23:50

Tap í Kópavogi

Keflavík tapaði í kvöld fyrir Breiðabliki 2-1 í 10. umferð Landssímadeildarinnar í knattspyrnu, en leikið var á Kópavogsvelli. Keflvíkingar eru þar með komnir niður fyrir Blika, eða í 8. Sæti, en eiga leik til góða. Fátt markvert gerðist framan af leiknum, utan þess þegar Blikar áttu skot í þverslá marks Keflvíkinga. Það var ekki fyrr en á 43. mínútu sem dró til tíðinda þegar brotið var á Zoran Ljubicic innan vítateigs Breiðabliks og vítaspyrna dæmd. Það var Guðmundur Steinarsson sem skoraði örugglega úr spyrnunni, en hann er nú orðinn markahæstur í Landssímadeildinni ásamt KR-ingnum Andra Sigþórssyni. Blikar voru betri meiri hluta leiksins og kom það því fáum á óvart þegar þeir jöfnuðu metin á 65. mínútu. Hreiðar Bjarnason, fyrirliði Breiðabliks fékk sendingu inn fyrir vörn Keflvíkinga, lék á Gunnleif Gunnleifsson og skoraði úr þröngu færi nánast frá endamörkum. Það var síðan á 79. mínútu sem Breiðablik komst yfir í leiknum eftir mjög svo umdeilt atvik. Garðar Newman renndi sér í boltann eftir að Marel Baldvinsson, Bliki, hafði komist einn inn fyrir. Boltinn barst til Gunnleifs í markinu, sem tók boltann upp. Dómari leiksins dæmdi þá óbeina aukaspyrnu inni í teig Keflvíkinga þar sem hann taldi að um sendingu hefði verið að ræða frá Garðari til Gunnleifs. Það var svo Hjalti Kristjánsson sem negldi boltanum í netið eftir að Kjartan Einarsson pikkaði boltanum til hans. Úrslitin því 2-1 fyrir Breiðablik og óhætt að segja að miðað við leik Keflvíkinga hafi þeir ekki átt mörg stig skilin úr þessum leik.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024