Tap í Kaplakrika
Rétt rúmlega eitt þúsund áhorfendur sáu góðan þriggja marka heimasigur í Kaplakrika í gær. Mörkin létu á sér standa til að byrja með en hlutirnir gerðust hratt síðustu 20 mínúturnar. Íslandsmeistaraefnin úr Hafnarfirði hófu leikinn mun betur en Keflvíkingar og eftir 10 mínútna leik höfðu þeir fengið nokkur góð færi til að skora í það minnsta eitt mark og besta færið kom frá Hólmari Erni Rúnarssyni en hann skaut í slánna og yfir úr dauðafæri. Freyr Bjarnason tók hermikrákuna á þetta og skallaði boltann í slánna stuttu síðar. Keflvíkingar fengu sín færi líka en það var ótrúlegt að ekkert mark skyldi detta inn hjá öðru hvoru liðinu fyrsta hálftímann. Atli Guðnason fékk nokkur góð færi til að koma heimamönnum yfir en þeir áttu erfitt með að skora FH-ingarnir. Liðin fóru markalaus inn í hálfleikinn og í raun frekar furðulegt að ekkert mark væri komið hjá þessum tveimur fínu sóknarliðum.
Jóhann Birnir Guðmundsson fékk rautt spjald, sitt seinna gula, fyrir að hrinda Guðjóni Árna þegar rúmur hálftími var til leiksloka og staðan var enn 0-0. Tæpum fimmtán mínútum síðar, eða á 70. mínútu átti Viktor Örn Guðmundsson, sem var þá búinn að vera á vellinum í góðar 2 mínútur, flotta fyrirgjöf sem endaði á kolli Atla Guðnasonar sem skoraði loksins fyrsta mark leiksins en það hafði legið í loftinu allar 70 mínúturnar. Mörkin létu á sér standa fram að þessu þrátt fyrir aragrúa færa en þetta mark opnaði vissar flóðgáttir því einungis fimm mínútum síðar varð Magnús Þór Magnússon fyrir því óláni að skora í eigið mark og koma FH-ingum tveimur mörkum yfir. Viktor Örn kórónaði magnaða innkomu sína með þriðja marki FH-inga á 89.mínútu og ekkert annað en stórslys kemur í veg fyrir að Íslandsmeistaratitillinn gisti í Krikanum næsta árið í það minnsta.
umfjöllun Sport.is