Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Tap í fyrsta leik
Mánudagur 15. maí 2006 kl. 16:58

Tap í fyrsta leik

Keflvíkingar hófu leiktíðina í Landsbankadeild ekki vel þar sem þeir töpuðu fyrir ÍBV á Hásteinsvelli, 2-1, í gær.

Mark Símúns Samuelsen kom þeim yfir á 20. mínútu, 1-0, og var jafnframt fyrsta mark sumarsins í deildinni. Hann fékk góða sendingu innfyrir vörnina frá Daniel Severino og kláraði færi sitt af miklu öryggi með skoti yfir Hrafn Davíðsson. Markið var ekki beint í takt við leikinn þar sem lítið hafði gengið hjá þeim fram að því.

Heldur tók að syrta í álinn hjá Keflvíkingum eftir það og á 32. mínútu fengu heimamenn vítaspyrnu þegar knötturinn hafnaði í hendi Guðjóns Árna Antoníussonar. Garðar Örn Hinriksson, dómari leiksins, lét mótmæli Keflvíkinga sem vind um eyru þjóta og Bo Henrikssen skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni.

Í síðari hálfleik dró enn fyrir sólu þegar Páll Hjarðar, fyrirliði ÍBV, skoraði með skalla eftir hornspyrnu, en gestirnir voru enn ósáttir við dómgæslu Garðars þar sem þeir töldu að brotið hafi verið á Ómari Jóhannssyni, markverði.

Baldur Sigurðsson fékk síðasta færi leiksins en skot hans var yfir markið og Eyjamenn fögnuðu sigri.

Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga, sagði marga samverkandi þætti liggja að baki tapinu. „Við vorum alls ekki að ná okkur á strik og náðum ekki að spila okkar bolta,“ sagði hann og átti þar við að völlurinn hafi verið afar erfiður yfirferðar. Hann hafi verið ósleginn og þurr þannig að ekkert gekk að leika eftir jörðinni. „Þá reyndum við að spila háa bolta og þeir voru sterkari í loftinu og unnu skallaboltana. Ég var að vona að marki okkar myndi kveikja í okkur, en það gerðist ekki.“
Kristján er ómyrkur í máli þegar kemur að dómgæslunni í leiknum sem hann segir að hafi verið fyrir neðan allar hellur. „Það er skammarlegt að Guðjón hafi fengið víti á sig því að hann sá aldrei boltann, fyrir utan það að boltinn fór ekki í hendina á honum. Hann fór í öxlina, eða í mesta lagi ofarlega á upphandlegginn. Í seinna markinu var svo hangið í treyjunni hans Ómars þannig að bæði mörkin þeirra voru kolólögleg.“
Hann segir sína menn þó staðráðna að koma sterkir inn í næsta leik sem er gegn nýliðum Víkings á Keflavíkurvelli. „Við verðum að rífa okkur upp og spila Keflavíkurbolta og ég er að vona að völlurinn okkar hjálpi okkur í því.“

Myndir/Jón Örvar: keflavik.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024