Tap hjá Víði gegn heimamönnum
Víðismenn töpuðu í gærkvöldi í öðrum leik sínum í undankeppni í Evrópukeppninni í Futsal en riðillinn er leikinn í Roubaix í Frakklandi. Leikið var gegn heimamönnum og lauk leiknum með 9-2 sigri Frakkanna.
Heimamenn fengu óskabyrjun í leiknum og komust yfir eftir aðeins 20 sekúndna leik. Þrátt fyrir þá blautu tusku í andlitið létu Víðismenn ekki á sig fá og börðust af krafti. Spiluðu þeir þéttan varnarleik og beittu hröðum sóknum þegar færi gáfust. Næstu 10 mínútur fengu Víðismenn nokkur góð færi til þess að jafna leikinn og óþolinmæði fór að gæta hjá heimamönnum. Á 11. mínútu skoruðu Frakkar hinsvegar annað mark sitt eftir einbeitingarleysi Víðismanna og á næstu tveimur mínútum fylgdu tvö mörk til viðbótar. Leikmenn Roubaix voru fljótir að refsa fyrir hver mistök á þessum tíma enda virkilega flinkir Futsal leikmenn þar á ferðinni. Fimmta markið kom svo skömmu fyrir hálfleik og staðan því 5-0 þegar liðin gengju til búningsherbergja.
Fyrstu mínútur seinni hálfleiksins var Víðismönnum erfiður og Frakkarnir nýttu sér öll þau mistök er áttu sér stað. Þegar sex mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum höfðu heimamenn bætt við þremur mörkum og staðan ekki vænleg. Víðismenn brugðu þá á það ráð að mæta Roubaix mönnum framar á vellinum og bar það góðan árangur. Á 13. mínútu síðari hálfleiks skoraði Einar Karl Vilhjálmsson eftir góða pressu Víðismanna og tveimur mínútum síðar skoraði Hörður Harðarson glæsilegt mark eftir skemmtilegt samspil við Einar Karl. Hraðinn var mikill í leiknum sem eftir lifði en aðeins eitt mark var gert til viðbótar og áttu heimamenn lokaorðið og tryggðu sér því 9-2 sigur.
Þessi annar leikur Víðismanna var töluvert betur leikinn af þeirra hálfu heldur en fyrsti leikurinn en mótherjarnir voru fljótir að færa sér öll mistök sér í nyt. Þessi leikur er samt mjög gott veganesti fyrir síðasta leikinn gegn Parnassos frá Kýpur en hann fer fram á miðvikudaginn kl. 17:00. Parnassos vann Yerevan í kvöld með níu mörkum gegn fjórum og eru því jafnir Roubaix í efsta sæti riðilsins með fjögur stig.
Í dag er frídagur og ekki leikið í riðlinum. Víðismenn munu hinsvegar ekki vera í miklu fríi enda er tímabil þeirra í 2. deildinni í knattspyrnu í fullum gangi. Þeir munu því munda takkaskóna í fyrramálið og æfa á grasvelli er fenginn hefur verið til afnota.
www.ksi.is