Tap hjá Njarðvík og Keflavík í Subway-deild kvenna
Njarðvíkingar misstu toppsætið eftir tapleik gegn Blikum á útivelli í gær – Valur skaust í efsta sætið með sigri á Keflavík.
Breiðablik - Njarðvík 76:70
(18:17, 21:12, 18:19, 19:22)
Leikur Breiðabliks og Njarðvíkur var mjög jafn og munaði aðeins einu stigi á liðunum eftir fyrsta leikhluta (18:17). Annar leikhluti varð Njarðvíkingum að falli en í honum náðu Blikar að byggja upp tíu stiga forystu (39:29) og þótt Njarðvík hafi sótt hart að þeim í seinni hálfleik þá hélt heimaliðið þetta út og hafði að lokum sex stiga sigur (76:70).
Aliyah Collier var venju samkvæmt í aðalhlutverki hjá Njarðvíkingum en hún var með 32 stig, ellefu fráköst og sjö stolna bolta, þá var hún með 31 framlagspunkt í leiknum. Helena Rafnsdóttir kom næst með sextán stig og sjö fráköst.
Með tapinu misstu Njarðvíkingar Val upp fyrir sig í deildinni en Njarðvík hefur leikið einum leik færra en Valur. Það stefnir því í hörkuleik þegar Njarðvík og Fjölnir, liðin sem sitja í öðru og þriðja sæti Subway-deildar kvenna, mætast í næstu umferð.
Frammistaða Njarðvíkinga: Aliyah A'taeya Collier 32/11 fráköst/7 stolnir, Helena Rafnsdóttir 16/7 fráköst, Lavína Joao Gomes De Silva 12/5 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 3, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 3, Diane Diéné Oumou 2/11 fráköst, Vilborg Jonsdottir 2, Krista Gló Magnúsdóttir 0, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Þuríður Birna Björnsdóttir 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0, Júlia Scheving Steindórsdóttir 0.
Valur - Keflavík 84:73
(27:15, 21:15, 16:17, 20:26)
Það var ljóst frá byrjun leiks að það yrði á brattann að sækja fyrir Keflvíkinga en Íslandsmeistarar Vals virðast vera að hrökkva í gang og eru búnar að vinna þrjá síðustu leiki sína. Valur náði að byggja upp átján stiga forskot í fyrri hálfleik (48:30) og þótt Keflvíkingar hafi unnið sig inn í leikinn í þeim seinni þá náðu þær aldrei að ógna sigri Vals. Lokatölur 84:73 og Valur kominn í efsta sæti deildarinnar en Keflavík situr í því fimmta með tólf stig.
Daniella Wallen fór fyrir liði Keflavíkur með 24 stig, fimmtán fráköst, fimm stoðsendingar og var með 33 framlagspunkta. Anna Ingunn Svansdóttir var með fimmtán stig og fjögur fráköst og Ólöf Rún Óladóttir bætti við þrettán stigum fyrir Keflavík
Frammistaða Keflvíkinga: Daniela Wallen Morillo 24/15 fráköst/5 stoðsendingar, Anna Ingunn Svansdóttir 15/4 fráköst, Ólöf Rún Óladóttir 13, Katla Rún Garðarsdóttir 7/4 fráköst, Tunde Kilin 7, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 3/4 fráköst, Anna Lára Vignisdóttir 2, Eygló Kristín Óskarsdóttir 2/4 fráköst, Anna Þrúður Auðunsdóttir 0, Ásthildur Eva H. Olsen 0.