Tap hjá Grindavíkurstúlkum
Kvennalið Grindavíkur í knattspyrnu heimsótti Aftureldingu í Mosfellsbæinn í gærkvöldi í 4. umferð Pepsi deildarinnar. Grindavík tapaði með einu marki, 1-0, en markið kom ekki fyrr en aðeins fjórar mínútur voru til leiksloka.
Mikil barátta var á Varmárvellinum í kvöld og einkenndust fyrstu mínúturnar af því. Eftir mikið miðjuhnoð kom fyrsta færið á 26. mínútu þegar Sigríður Þóra Birgisdóttir, leikmaður Aftureldingar, átti gott skot á markið en markvörður þeirra gulu varði vel. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks sóttu Aftureldingarstúlkur meira en þær áttu þó í vandræðum með sterka vörn Grindavíkurliðsins. Í hálfleik var enn markalaust.
Grindavíkurstúlkur hófu seinni hálfleik af krafti og á 55. mínútu átti Dagmar Þráinsdóttir þrumuskot að marki Aftureldingar en heppnin var ekki með henni og sveif boltinn rétt yfir mark gestgjafanna. Á 75. mínútu fengu þær gulu dæmda á sig vítaspyrnu eftir að boltinn fór í hendi varnarmanns Grindavíkur. Samantha Aretha Diaz-Matosas tók vítið en skotið var slakt og fór beint í fang Helen Alderson, markvarðar þeirra gulu. Eftir þetta sóttu bæði lið stíft enda var stutt til leiksloka og enn markalaust. Á 84. mínútu skoraði Telma Þrastardóttir, leikmaður Aftureldingar, eina mark leiksins þegar hún slapp ein inn fyrir vörn gestanna og afgreiddi boltann af öryggi í netið. Á loka mínútu leiksins fengu Grindavíkurstúlkur tækifæri til þess að jafna metin þegar markvörður Aftureldingar fékk dæmda á sig óbeina aukaspyrnu fyrir að taka boltann með höndum eftir sendingu frá liðsfélaga sínum. Þeim tókst þó ekki að nýta hana og 1-0 tap í Mosfellsbænum því staðreynd.
Grindavík er nú í 8. sæti deildarinnar með 4 stig í jafn mörgum leikjum. Næsti leikur þeirra er gegn FH í Grindavík á þriðjudaginn og hefst sá leikur klukkan 19:15.