Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Tap á heimavelli í rokleik
Það var oft sótt stíft undan stífu rokinu. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 16. október 2022 kl. 12:01

Tap á heimavelli í rokleik

Keflavík og FH mættust í neðri hluta Bestu deildar karla á HS Orkuvellinum í gær. Það má segja að leikurinn hafi verið ójafn áður en hann byrjaði en Keflavík hefur að engu að keppa, er með öruggt sæti í efstu deild að ári, á meðan FH rær lífróður til að forðast fall. Keflavík lék undan vindi í fyrri hálfleik og náðu tveggja marka forystu en Hafnfirðingar minnkuðu muninn fyrir leikhlé og bættu tveimur mörkum við í seinni hálfleik.

Keflavík - FH 2:3

Hávaðarok setti mikinn svip á leikinn þar sem stífur vindur stóð á annað markið. Heimamenn léku undan vindi í fyrri hálfleik og pressuðu stíft fyrstu mínúturnar. Eftir um tíu mínútna leik fóru FH-ingar að komast betur inn í leikinn og komast í eina og eina sókn.

Keflavík gekk erfiðlega að skapa sér færi en á 19. mínútu kom fyrsta markið þegar Keflavík tók hornspyrnu og Dagur Ingi Valsson skallaði boltann í markið. Keflavík tvöfaldaði forystu sína eftir afdrifarík mistök markvarðar FH sem hafði handsamað knöttinn en kastaði honum beint til Patrik Johannesen sem tók skot en það var varið. Boltinn barst svo til Adams Ægis Pálssonar sem skoraði í annarri tilraun (32').

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Dagur Ingi stekkur manna hæst og skallabolti hans fer í gegnum pakkann og í mark FH.

Gestirnir minnkuðu muninn skömmu síðar eftir ágætis fyrirgjöf úr aukaspyrnu en vörn Keflavíkur svaf á verðinum og FH-ingurinn Guðmundur Kristjánsson fékk boltann einn og óvaldaður í miðjum vítateig, hann þakkaði pent fyrir sig með góðu skoti sem Sindri Kristinn Ólafsson í marki Keflavíkur átti ekkii mögguleika á að verja. Staðan 2:1 í hálfleik.

Vörn Keflavíkur svaf á verðinum þegar FH minnkaði muninn.

Seinni hálfleikur var einstefna að marki Keflavíkur og þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik fögnuðu FH-ingar (55') og tveimur mínútum síðar létu þeir kné fylgja kviði. Þá átti FH bylmingsskot utan teigs beint í fangið á Sindra Kristni en hann hélt ekki föstu skotinu sem hrökk af honum fyrir fætur Úlfs Ágústs Björnssonar sem skoraði sigurmark FH (57').

Úlfur Ágúst var öryggið uppmálað þegar hann kom FH í forystu.

Það er ekki hægt að segja að sigur FH hafi verið ósannggjarn enda höfðu þeir viljann til að vinna á meðan Keflvíkingar náðu ekki upp almennilegri stemmningu í októberrokinu og -kuldanum, í raun hefði sigur FH hæglega getað orðið mun stærri en Sindri Kristinn átti eftir að bæta fyrir mistök sín síðar í leiknum með góðum markvörslum.

Uppskeruhátíð yngri flokka

Ölmu Rós Magnúsdóttur var veittur Ellabikarinn í ár en hún lék m.a. með U15 landsliði Íslands og skoraði eitt mark í sigri á Litháen.
.

Fyrir leikinn var uppskeruhátíð hjá yngri flokkum Keflavíkur og Ellabikarinn afhentur en Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók myndir við tilefnið og úr leiknum eins og sjá má í myndasöfnum neðar á síðunni.

Keflavík - FH (2:3) | Besta deild karla 15. október 2022

Ellabikarinn 2022