TaKesha Watson: Allir einbeittir og ákveðnir
Bandaríski leikmaðurinn TaKesha Watson fór á kostum í liði Keflavíkur í kvöld er Keflavík hafði góðan útisigur gegn Haukum í úrslitakeppni Iceland Express deildar kvenna í körfuknattleik. Watson gerði 34 stig í leiknum, gaf 10 stoðsendingar, tók 6 fráköst og stal 6 boltum. Keflavík leiðir einvígið 2-0 og þurfa því aðeins einn sigur til viðbótar til að tryggja sér sæti í úrslitum deildarinnar. Skotnýting Watson var mögnuð í kvöld, hún setti reyndar aðeins 4 af 12 teigskotum sínum en 6 af 7 þriggja stiga skotum lágu niðri sem og öll hennar átta vítaskot í leiknum.
,,Þó það sé heimaleikur hjá okkur á miðvikudag þá er sigurinn fjarri því öruggur og við verðum að halda áfram að berjast fyrir hlutunum og vinna einvígið 3-0 og komast sem fyrst í næstu umferð,” sagði Watson í samtali við Víkurfréttir í leikslok að Ásvöllum.
,,Við vorum ekki nægilega einbeittar í fyrri hálfleik í kvöld og lykilmenn hjá okkur voru að lenda í villuvandræðum en við megum ekki missa einbeitinguna þegar það gerist og megum síður en svo fara að tauta í dómaranum. Heldur verðum við að spila áfram okkar leik eins og við gerðum í síðari hálfleik,” sagði Watson en hún sagði að Keflvíkingar vildu síður en svo þurfa að treysta á þriggja stiga skotin.
,,Við viljum ekki þurfa að treysta á þriggja stiga skotin okkar en við tökum þau þegar þau eru opin en Haukar eru með hávaxið lið og verðum því að nýta hraðann okkar til fullnustu gegn hæðinni þeirra,” sagði Watson en við hverju býst hún í þriðja leik liðanna á miðvikudag?
,,Haukar munu berjast af alefli á miðvikudag og ég býst við því að hvorugt lið gefi tommu eftir í leiknum. Við búumst við hörkuleik.” Gæti það orðið eitthvert vandamál að undirbúa sig fyrir leikinn og eiga það á hættu að falla í þá gryfju að fara að slaka á?
,,Aldur er bara tala og allir okkar leikmenn eru einbeittir og ákveðnir og vilja það sem við höfum ekki, Íslandsmeistaratitilinn!”