Tæpt var það í vesturbænum
Íslands- og bikarmeistarar KR geta prísað sig sæla með tvö stig í gærkvöldi eftir nauman 74-73 sigur á Keflavík í DHL-Höllinni. Gestirnir fengu tvær tilraunir til að gera út um leikinn þar sem boltinn dansaði af hringnum. Síðari háfleikur var jafn og spennandi eftir nokkuð dapran fyrri hálfleik. Sigurinn hefði auðveldlega getað fallið báðum liðum í skaut en KR-ingar hafa varið sinn heimavöll með kjafti og klóm og engin auðsótt stig eru við lýði í vesturbænum.
Skotnýting liðanna hefur oft verið betri og á það sérstaklega við um fyrri hálfleikinn en hún fór þó lítið eitt upp á við í síðari hálfleik, þó fjarri því að vera þessum liðum sæmandi.
KR leiddi 4-2 eftir þriggja mínútna leik, liðin voru með varnaryfirlýsingar í byrjun og þegar það er uppi á teningnum er oft ekki lengi að bíða þess að losni um hömlurnar og fjörið geti hafist. Það gerðist reyndar ekki fyrstu tuttugu mínúturnar í DHL-Höllinni í kvöld.
Fyrsti leikhluti var þunglamalegur og óreiðukenndur hjá báðum liðum, Sigurður Friðrik Gunnarsson kom reyndar mjög sprækur af Keflavíkurbekknum og gerði sjö stig í röð fyrir gestina og minnkaði muninn í 14-13. Heimamenn í KR áttu þó lokaorðið og leiddu 19-18 að loknum leikhlutanum eftir þrist frá Martin Hermannssyni þegar um tvær sekúndur voru eftir.
Keflvíkingar byrjuðu með svæðisvörn í öðrum leikhluta en brugðu sér annað veifið í maður á mann vörn. Fátt vildi leka niður um netið hjá báðum liðum. KR hafði frumkvæðið framan af en Keflvíkingar komust skrefi fram fyrir og leiddu 34-35 í hálfleik. Munurinn hefði reyndar getað verið meiri hefði Jarryd Cole ekki sent Finn Magnússon á vítalínuna þegar rúm sekúnda var til hálfleiks eftir að hann hoppaði á Finn í lokaskotinu.
Charles Parker var með 9 stig hjá Keflavík í hálfleik og þurfti að hafa mikið fyrir þeim, hékk allt of mikið á boltanum. Sigurður Friðrik Gunnarsson var svo með 7 stig. Hjá KR var David Tairu með 7 stig og þeir Emil Þór Jóhannsson og Finnur Magnússon með 6.
Síðari háflelikur vakti gesti og gangandi, Magnús Þór Gunnarsson opnaði með tveimur þristum og Keflavík komst í 34-41. Magnúsi greinilega misboðin þriggja stiga nýting Keflavíkur í fyrri hálfleik sem var heil 6,6%.
KR svaraði með 10-0 áhlaupi og komust í 44-41. Sigurður Ingimundarson kallaði sína menn við þetta á tréverkið og hann hefur haft góð áhrif á sína menn sem snéru taflinu sér í vil, leiddu 53-62 að loknum þriðja leikhluta þar sem Almar Guðbrandsson átti glimrandi spretti í Keflavíkurliðinu.
Þeir félagar Edward Horton og David Tairu byrjuðu báðir utan vallar í fjórða leikhluta en komu til leiks þegar 6.50mínútur voru eftir, þá leiddu gestirnir 58-62. Hægt og sígandi tókst KR að komast upp að hlið gestanna og síðar framúr með fjórum stigum í röð frá Hreggviði á lyklinum gegn svæðisvörn Keflavíkur.
KR leiddi fram á lokamínútuna, staðan 72-68 þegar 55 sekúndur voru til leiksloka heimamönnum í vil. Hér upphófst magnaður reyfari, Emil Þór misnotar tvö víti og staðan er því áfram 74-71 þegar 37 sekúndur eru eftir. Jarryd Cole fer endalínuna eins og balletdansari í næstu Keflavíkursókn og leggur boltann í körfuna, 74-73. Keflavík pressar á KR sem sendir boltann á David Tairu, tíminn líður og þegar 15 sekúndur eru eftir biður Tairu um leikhlé á meðan leikurinn er enn í gangi!
Keflvíkingar voru fljótir að kveikja, stukku á Tairu og dæmt var uppkast, Keflavík átti sóknarréttinn og fékk því boltann. Gestirnir stilltu upp í líklega sókn, boltinn fór inn í teig, fyrra skotið dansaði af hringnum sem og það síðara og leikklukkan rann út, sigur KR í höfn 74-73 og enginn var fegnari en David Tairu í leikslok. Ætli kappinn sé nú ekki kominn með Evrópureglurnar á hreint eftir svona lífsreynslu. Keflvíkingar geta að sama skapi nagað sig í handarbökin fyrir að fara í tvígang illa með tvö góð færi á lokasekúndunum.
Texti og mynd: karfan.is