Tæpt tap í Kaplakrika
Keflvíkingar máttu þola tap fyrir FH í gær þegar liðin áttust við í Kaplakrika í sjöttu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu. Keflavík situr í níunda sæti deildarinnar en liðið hefur aðeins náð einu jafntefli í síðustu fimm umferðum eftir að hafa byrjað Íslandsmótið á sigri á Fylkismönnum.
FH var sterkari aðilinn í leiknum en vörn Keflavíkur hélt framundir lok fyrri hálfleiks. Það var Úlfur Ágúst Björnsson, sem lék með Njarðvík á síðasta tímabili, sem skoraði fyrsta markið eftir flott spil í gegnum vörn Keflavíkur (39').
Edon Osmani kom inn á í stað Sindra Þórs Guðmundssonar í hálfleik og hann gerði sig sekan um slæm mistök snemma í seinni hálfleik þegar sending hans aftur til Mathias Rosenord, markvarðar Keflavíkur, misheppnaðist hrapalega. Sóknarmaður FH komst inn í sendinguna og þakkaði pent fyrir sig með því að vippa yfir Rosenord sem hafði komið út á móti sendingunni og var þar af leiðandi staddur í einskismannslandi (52'). Staðan orðin 2:0 fyrir FH.
Viktor Andri Hafþórsson minnkaði muninn á 52. mínútu með sinni fyrstu snertingu, þá nýkominn inn á fyrir Marley Blair. Lengra komust Keflvíkingar ekki og mega FH-ingar þakka fyrrum leikmanni Keflavíkur fyrir, markverðinum Sindra Kristni Ólafssyni, en hann sýndi stórleik og varði vel á mikilvægum augnablikum.
Keflavík mætir HK á heimavelli sínum í næsta leik sem verður næstkomandi sunnudag.