Tæpt í Grindavík
Grindavík sigraði með eins stig mun þegar liðið tók á móti Snæfelli í gær í Iceland Express-deild karla í körfuknattleik. Leikurinn var æsispennandi og hart barist.
Snæfell leiddi eftir fyrsta leikhlutann, 19-24. Grindvíkingar náðu að jafna í 24-24 í upphafi annars leikhluta. Baráttan var hörð og liðin skiptust á að taka forystuna í snörpum og fjörugum leik. Þrjú stig skildu liðin að í hálfleik en þá var staðan 47-44 fyrir Snæfell.
Snæfellingar náðu góðri byrjun í seinni hálfleik og komust í 10 stiga mun, 61-51. Grindvíkingar sáu að við svo búið yrðu þeir að herða róðurinn og með góðri baráttu náðu þeir að snúa leiknum sér í hag og leiddu í loka þriðja fjórðungs, 71-67.
Talsverð villuvandræði voru farin að hrjá lið Grindavíkur í síðasta leikhlutanum og lykilmenn farnir á bekkinn af þeim sökum. Snæfellingar náðu að jafna í 85-85 þegar hálf mínúta var eftir af leiknum og þannig var staðan í leikslok. Því varð að grípa til framlengingar. Hún var æsispennandi með þriggja stiga körfum á víxl og hörku baráttu þar sem ekkert var gefið eftir. Rétt undir lokið setti Björn Steinar Brynjólfsson niður þriggja stiga körfu fyrir Grindavík sem réði úrslitum leiksins. Lokatölur urðu 95-94.
Páll Axel Vilbergsson var stigahæstur í liði Grindvíkinga með 21 stig. Ómar Örn Sævarsson var með 15 stig og 8 fráköst. Ólafur Ólafsson skoraði 14 stig og Darrel Flake 13.
---
Mynd úr safni/www.karfan.is