Taekwondosamband Íslands aflýsir öllum mótum fyrir áramót
Öllu mótahaldi á vegum Taekwondosambands Íslands hefur verið aflýst út árið. Þetta segir á Facebook-síðu sambandsins.
Í ljósi aðstæðna í samfélaginu, og þeirra reglna sem gilda um íþróttaþjálfun og keppni, er illmögulegt að halda slíka viðburði og á sama tíma tryggja öryggi iðkenda. Öryggi iðkenda er ávallt efst í huga stjórnarinnar sem hefur fylgst náið með framvindu mála og er í góðu sambandi við Íþróttasamband Íslands og sóttvarnaryfirvöld.
„Staðan er því miður síbreytileg og því er erfitt að gera áætlanir. Við hvetjum öll félög til að taka fullt mark á fyrirmælum yfirvalda og hyggja vel að sóttvörnum, hafi þau ekki gert svo hingað til,“ segir jafnframt í færslu frá stjórninni.
Taekwondo-deild Keflavíkur notaði fjarþjálfunarbúnað í vor
Víkurfréttir heyrðu í Helga Rafni Guðmundssyni, yfirþjálfara Taekwondo-deildar Keflavíkur, og spurðu hann hvernig fyrirkomulagið yrði á æfingum og innanfélagsmótum hjá Keflavík þetta haustið.
„Við munum alla vega halda jólamót, það er alveg pottþétt,“ sagði Helgi; „... og ef aðstæður verða orðnar þannig þá munum við í versta falli halda það á netinu.“
Taekwondo-deildin, eins og aðrir, þurfti að bregðast við breyttum aðstæðum síðasta vor þegar allt samfélagið lagðist á hliðina í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins. Helgi og aðrir þjálfarar félagsins tóku þá í notkun fjarþjálfunarbúnað og allar æfingar fóru fram yfir netið.
„Við tókum í notkun forritið XPS frá Sidelines Sports, allt þjálfarateymið þurfti að læra á þetta og svo foreldrarnir og iðkendurnir líka til að þetta myndir virka. Það gekk ótrúlega vel og þeim hjá Sidelines Sports þótti áhugavert að sjá hvernig við unnum þetta. Ég var fenginn í upptökur hjá þeim til að segja frá hvernig þetta gekk og hvernig við vorum að nota forritið,“ sagði Helgi.
– Munuð þið nota sama forrit í jólamót ef til kemur?
„Ég veit það nú ekki, það hentar kannski ekki í svona mót. Sennilega verður þetta sett upp á Youtube, þar sem keppendur setja inn myndbönd af sér að gera Poomsae [keppni í formi]. Þetta er nú bara innanfélagsmót en gæti orðið innanlandsmót svo sem líka. Svo erum við með brynjur með skynjurum og það gæti verið að við förum í að gera æfingar á þeim – eins og keppni í hraða í spörkum, skynjararnir telja þá hve oft keppandi nær að sparka á mínútu sem dæmi. Þetta er allt í vinnslu og kemur í ljós seinna.“
Í spilaranum hér að neðan má sjá Helga Rafn segja frá reynslu sinni af fjarþjálfunarbúnaðinum XPS network. Á heimasíðu Sideline Sport má sjá að fleiri Íslendingar kunna að meta þetta fjarþjálfunarfyrirkomulag, þar gefa Heimir Hallgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, og Vésteinn Guðmundsson, sem er vel kunnur styrktarþjálfari afreksíþróttafólks, forritinu góð meðmæli.