Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Systurnar skoruðu báðar og Sandra stóð á milli stanganna
Tvíburasysturnar Jasmine Aiyana og Jada Lenis Colbert skoruðu sitt markið hvor. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 30. júní 2023 kl. 11:36

Systurnar skoruðu báðar og Sandra stóð á milli stanganna

Grindavík situr áfram í fimmta sæti Lengjudeildar kvenna í knattspyrnu eftir 3:2 sigur á Augnabliki í gær. Grindvíkingar eru að færast nær efstu liðum en bæði HK og Fylkir töpuðu sínum leikjum í gær.

Systurnar Jasmine Aiyana og Jada Lenis Colbart skoruðu fyrstu tvö mörkin. Jasmine strax á 6. mínútu þegar Grindavík fékk aukaspyrnu, upp úr aukaspyrnunni Una Rós Unnarsdóttir boltann, hún átti skot sem markvörður Augnabliks náði að verja en Jasmine náði frákastinu og setti boltann í netið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tvíburasysti Jasmine, Jada Lenis, skoraði glæsilegt mark á 26. mínútu þegar hún tók skot utan teigs og smurðu honum undir slánna, gersamlega óverjandi fyrir markvörð gestanna sem gerði ekki tilraun í skotið.

Stórglæsilegt mark og markvörður Augnabliks átti aldrei möguleika í skotið.

Það var svo Ása Björg Einarsdóttir sem kom Grindavík í þægilega stöðu þegar hún skoraði eftir langa sendingu inn í teig Augnabliks, varnarmenn náðu ekki að hreinsa frá og Una var fljót að átta sig á hlutunum og afgreiddi knöttinn fagmannlega í markið. 3:0 fyrir Grindavík í hálfleik en þær grindvísku voru nánast einráðar á vellinum í fyrri hálfleik.

Grindvíkingar mættu full afslappaðar til leiks í seinni hálfleik og gestirnir náðu að minnka muninn í upphafi hans (48'). Þá kom góð sending inn fyrir vörnina og Edith Kristín Kristjánsdóttir náði föstu skoti í fjærhornið. Sandra Sigurðardóttir, sem tók hanskana fram á ný og stóð í marki Grindvíkinga á neyðarláni, viðurkenndi eftir leik að hún hefði átt að verja skotið en það var skal ekki tekið af Edith að skotið var gott.

Skotið var fast og Sandra sigruð.

Heimakonur vöknuðu aðeins við að fá mark á sig en gestirnir voru búnir að fá blóð á tennurnar og gætti mun meira jafnvægis í seinni hálfleik en þeim fyrri. Litlu munaði að Augnablik næði öðru marki á 61. mínútu þegar gott langskot hafnaði ofan á þverslánni hjá Grindavík.

Það var komið vel fram yfir venjulegan leiktíma þegar Augnablik skoraði annað mark (90'+4). Þar var að verki Líf Joostdóttir van Bemmel sem náði að skalla góða fyrirgjöf og sneiða boltann fjærhornið. Grindvíkingar búnir að hleypa óþarfa spennu í leikinn en lengra komust gestirnir ekki og Grindavík tók öll stigin.

Líf nær að breyta stefnu boltans og Sandra gat lítið við þessu gert.

Grindavík er í fimmta sæti með fimmtán stig, Fylkir og Grótta eru með sextán í þriðja og fjórða sæti, HK með sautján og Víkingur er í toppsætinu með 22 stig.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Stakkavíkurvelli í gær og má sjá myndasafn neðst á síðunni. Þá er einnig viðtal við Unu Rós Unnarsdóttur, fyrirliða Grindavíkur, og markvörðinn Söndru Sigurðardóttur í spilaranum hér að neðan.

Grindavík - Augnablik (3:2) | Lengjudeild kvenna 29. júní 2023