Systurnar skoruðu báðar og Sandra stóð á milli stanganna
Grindavík situr áfram í fimmta sæti Lengjudeildar kvenna í knattspyrnu eftir 3:2 sigur á Augnabliki í gær. Grindvíkingar eru að færast nær efstu liðum en bæði HK og Fylkir töpuðu sínum leikjum í gær.
Systurnar Jasmine Aiyana og Jada Lenis Colbart skoruðu fyrstu tvö mörkin. Jasmine strax á 6. mínútu þegar Grindavík fékk aukaspyrnu, upp úr aukaspyrnunni Una Rós Unnarsdóttir boltann, hún átti skot sem markvörður Augnabliks náði að verja en Jasmine náði frákastinu og setti boltann í netið.
Tvíburasysti Jasmine, Jada Lenis, skoraði glæsilegt mark á 26. mínútu þegar hún tók skot utan teigs og smurðu honum undir slánna, gersamlega óverjandi fyrir markvörð gestanna sem gerði ekki tilraun í skotið.
Það var svo Ása Björg Einarsdóttir sem kom Grindavík í þægilega stöðu þegar hún skoraði eftir langa sendingu inn í teig Augnabliks, varnarmenn náðu ekki að hreinsa frá og Una var fljót að átta sig á hlutunum og afgreiddi knöttinn fagmannlega í markið. 3:0 fyrir Grindavík í hálfleik en þær grindvísku voru nánast einráðar á vellinum í fyrri hálfleik.
Grindvíkingar mættu full afslappaðar til leiks í seinni hálfleik og gestirnir náðu að minnka muninn í upphafi hans (48'). Þá kom góð sending inn fyrir vörnina og Edith Kristín Kristjánsdóttir náði föstu skoti í fjærhornið. Sandra Sigurðardóttir, sem tók hanskana fram á ný og stóð í marki Grindvíkinga á neyðarláni, viðurkenndi eftir leik að hún hefði átt að verja skotið en það var skal ekki tekið af Edith að skotið var gott.
Heimakonur vöknuðu aðeins við að fá mark á sig en gestirnir voru búnir að fá blóð á tennurnar og gætti mun meira jafnvægis í seinni hálfleik en þeim fyrri. Litlu munaði að Augnablik næði öðru marki á 61. mínútu þegar gott langskot hafnaði ofan á þverslánni hjá Grindavík.
Það var komið vel fram yfir venjulegan leiktíma þegar Augnablik skoraði annað mark (90'+4). Þar var að verki Líf Joostdóttir van Bemmel sem náði að skalla góða fyrirgjöf og sneiða boltann fjærhornið. Grindvíkingar búnir að hleypa óþarfa spennu í leikinn en lengra komust gestirnir ekki og Grindavík tók öll stigin.
Grindavík er í fimmta sæti með fimmtán stig, Fylkir og Grótta eru með sextán í þriðja og fjórða sæti, HK með sautján og Víkingur er í toppsætinu með 22 stig.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Stakkavíkurvelli í gær og má sjá myndasafn neðst á síðunni. Þá er einnig viðtal við Unu Rós Unnarsdóttur, fyrirliða Grindavíkur, og markvörðinn Söndru Sigurðardóttur í spilaranum hér að neðan.