Synir Gumma Braga til Bandaríkjanna
Jón Axel og Ingvi Þór leika körfubolta í Philadelphia
Bræðurnir Jón Axel og Ingvi Þór Guðmundssynir eru báðir á förum frá Grindavík en kapparnir munu læra við og leika körfubolta með Church Farm miðskólanum í Philadelphiu í Bandaríkjunum í haust. Karfan.is greinir frá. Jón Axel sem verður 18 ára í október vakti verðskuldaða athygli með Grindvíkingum á tímabilinu. Bróðir hans Ingvi verður 16 ára í júlí og er í hópi nokkurra af efnilegustu leikmönnum landsins. Bræðurnir eru synir miðherjans Guðmundar Bragasonar sem er einn af bestu leikmönnum í sögu Grindvíkinga.
„Þetta tímabil í Domino´s deildinni var svo nálægt því að verða einstakt en þetta er tímabil sem maður lærir mikið af,“ sagði Jón Axel í samtali við Karfan.is. „Ef ég horfi á tímabilið í heild sinni get ég ekki sagt að við séum fullkomnlega sáttir með okkur, við áttum að geta unnið tvöfalt, vorum með nógu gott lið til þess. Bikartitillinn kom en það vantaði bara örlítið upp á að sá stóri hefði komið líka,“ sagði Jón Axel ennfremur en nánar má lesa á Karfan.