Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Svo bregðast krosstré sem önnur
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 15. desember 2023 kl. 14:16

Svo bregðast krosstré sem önnur

Eftir frábæra frammistöðu að undanförnu þurfti Njarðvíkingurinn Hámundur Örn Helgason að lúta í lægri haldi en hann fékk fjóra rétta á móti fimm réttum Jóns Ásgeirs Þorkelssonar. Seðillinn var greinilega erfiður, það voru einungis þrír tipparar sem náðu þrettán réttum, enginn þeirra frá Íslandi. Þessir þrír fengu tæpar 63 milljónir í sinn hlut, fínn jólabónus það!

Hámundur hefur því lokið leik að þessu sinni en hann er samt sem áður kominn á toppinn í tippleik Víkurfrétta, náði alls 34 réttum í fjórum skiptum. Jónas Þórhallsson er í öðru sæti með 26 rétta í þremur skiptum, Petra Ruth Rúnarsdóttir úr Vogum í þriðja sæti með sautján rétta og Eva Rut Vilhjálmsdóttir úr Garði í því fjórða með sextán rétta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Næsti áskorandi kemur úr Suðurnesjabæ, n.t.t. frá Sandgerði. Grétar Ólafur Hjartarson gat sér gott orð sem knattspyrnumaður á sínum tíma og lék um tíma sem atvinnumaður, fyrst í Skotlandi með Sterling Albion og svo síðar meir með Lilleström í Noregi. Hann hóf ferilinn með heimaliðinu Reyni, fór þaðan til Grindavíkur en auk þessara liða lék hann með KR og tók eitt tímabil með Keflavík áður en hann lauk ferlinum þar sem hann byrjaði, með Reyni í Sandgerði árið 2012. Grétar starfar í dag í innkaupadeildinni hjá Icelandair og líst vel á að vera mættur í tippleik Víkurfrétta. „Ég hef nú ekki verið mikill tippari í gegnum tíðina en það verður gaman að rifja upp taktana. Ég er gallharður stuðningsmaður Manchester United og þótt gengið sé dapurt þessa dagana ber maður höfuðið alltaf hátt, það þýðir ekkert annað. Sem mikill stuðningsmaður United var að sjálfsögðu mjög gaman þegar Lee Sharpe gekk til liðs við Grindavík en því miður meiddist ég í leik á undirbúningstímabilinu og var frá allt það tímabil, svo við náðum ekki að leika mikið saman. Hann skoraði einmitt sitt eina mark fyrir Grindavík nokkrum sekúndum eftir að ég lá óvígur ökklabrotinn. Ég er mikill keppnismaður, mun mæta í þetta verkefni á móti Jóni Ásgeiri með mitt keppnisskap og ætla mér ekkert nema sigur, mun ekki sýna neina miskunn en óska honum jafnframt alls hins besta,“ sagði Grétar.

Tipparinn Jón Ásgeir var að sjálfsögðu ánægður með að ná að velta Hámundi af stalli og ætlar sér að sitja sem fastast. „Þetta var hörkurimma hjá okkur Hámundi lengi framan af, hann var yfir en það var Watford sem bjargaði mér og tryggði mér reyndar sigurinn á 96. mínútu, ef sá leikur hefði farið jafntefli hefði Hámundur unnið því hann var með fleiri rétta í sex fyrstu leikjunum. Það verður bara gaman að mæta Grétari sem er Sandy Hill maður í gegn, ég kannast aðeins við kauða og þetta verður hörkurimma, ég hlakka bara til þeirrar keppni. Annars þakka ég Hámundi fyrir hörkukeppni, hann sannaði að hann er góður tippari,“ sagði Jón Ásgeir.