Svik og prettir í heimsbikarnum
Gunnar Gunnarsson á torfærubílnum Trúðnum og aðrir torfærukappar frá Íslandi segja farir sínar ekki sléttar frá Noregi þessa dagana þar sem allt bendir til þess reynt hafi verið að slá ryk í augu íslensku keppendanna. Síðustu ár hafa íslenskir torfærukappar einokað heimsbikarinn í torfærunni og einhverra hluta vegna láðist að tilkynna íslensku keppendunum í ár að heimsbikarkeppnin væri hafin og því misstu keppendur af Íslandi af fyrstu umferðunum, grunlausir um að keppni væri hafin.
,,Ég hefði ekki farið þarna út til Noregs að keppa hefði ég vitað að ég væri að fara að keppa í þriðja mótinu á heimsbikarmótaröðinni. Okkur íslensku ökumönnunum finnst þetta nokkuð grunsamlegt en við sendum pósta út til Finnlands þar sem fyrstu umferðirnar fóru fram og fengum engin svör,” sagði Gunnar sem er allt annað en sáttur við stöðu mála þessa dagana.
,,Finnar greiddu niður ferðakostnað Norðmanna í fyrstu umferðirnar en við komum að luktum dyrum þegar við vildum slíkt hið sama því við höfðum jú aðstoðað þá við komu þeirra hingað til lands í fyrra. Þegar við komum út til Noregs um daginn töldum við að keppni væri að hefjast á fyrsta heimsbikarmóti ársins enda brá okkur í brún þegar kynnirinn bauð gesti velkomna á þriðju umferð,” sagði Gunnar.
Íslensku torfærukapparnir eiga nú í viðræðum við félaga sína í Noregi og Finnlandi en eins og staðan er í dag hefur Gunnar 16 stig í sérútbúnum flokki og á ekki möguleika á sigri í mótinu nema efsti maður hreinlega falli úr keppni á Hellu dagana 22. og 23. september.
Hvort bolabrögð séu í tafli skal ósagt látið en íslensku torfærukapparnir eru allt annað en sáttir enda fór Gunnar hamförum í Noregi og stefndi allt í stórsigur hans á mótinu uns hann velti bíl sínum niður 80 metra langa hlíð og gat ekki haldið áfram keppni og varð að sætta sig við 3. sætið. Eknar voru tvær umferðir í Noregi þar sem Gunnar var efstur að lokinni fyrstu umferð á laugardeginum með yfirburðaakstri en á sunnudeginum hafði hann 80 stiga forystu þegar ein braut var eftir en þar braut hann framöxul og datt fyrir vikið niður í 3. sæti eftir veltuna löngu.