Svífa um á bleiku skýi og byrjaðar að safna verðlaunum
-Hópur dansara frá Danskompaní á Dance World Cup í Portúgal
Hópur dansara frá Danskompaní í Reykjanesbæ tekur nú þátt í heimsmeistaramótinu í dansi, Dance World Cup, sem haldið er í Braga í Portúgal.
Hingað til hefur hópurinn náð gríðarlega góðum árangri en dansararnir sem um ræðir eru þær Díana Dröfn Benediktsdóttir, Elma Rún Kristinsdóttir, Ingibjörg Sól Guðmundsdóttir, Jórunn Björnsdóttir, Júlía Mjöll Jensdóttir, Sonja Bjarney Róbertsdóttir Fisher og Sóley Halldórsdóttir. Þær keppa í hinum ýmsu dansflokkum með mismunandi atriði. Fyrsta atriðið frá Danskompaní var dansinn Mavavity eftir Auði B. Snorradóttur en það endaði í 5. sæti og var flutt af þeim Jórunni og Sóleyju.
Sóley og Jórunn sáttar í Portúgal.
Þá hlaut annað atriði frá Danskompaní bronsverðlaun með atriðið Harpies eftir Helgu Ástu, eiganda Danskompaní. Dansararnir í því atriði voru þær Díana, Elma, Ingibjörg, Júlía og Sonja.
Víkurfréttir náðu tali af Ingibjörgu Sól sem var virkilega sátt með frammistöðu Danskompaní og íslenska landsliðsins í heild sinni.
„Við erum ótrúlega stoltar af því að hafa náð svona langt og ætlum að gera okkar allra besta. Markmiðið okkar er að kynnast dönsurum hvaðanæva að úr heiminum, sýna okkur og sjá aðra. Þetta er frábært tækifæri til að læra meira, fá innblástur og byggja vinasambönd við aðra dansara,“ segir hún.
Stelpurnar á æfingu fyrr í sumar þar sem dansinn Harpies var æfður.
Framundan eru fleiri keppnir hjá stelpunum, æfingar og uppskeruhátíð í einu stærsta leikhúsi Portúgal þar sem heimsmeistaratitillinn verður veittur og flottustu atriði keppninnar sýna.
„Við svífum um á bleiku skýi. Þetta er ótrúleg upplifun. Íslenska landsliðið er búið að standa sig svo vel í keppninni og við hlökkum til að halda áfram að gera okkar besta og betra en það,“ bætir Ingibjörg við.
Hægt er að fylgjast með hópnum á Instagram- og Facebook-síðu Danskompaní það sem eftir er móts en hópurinn vill koma kærum þökkum til styrktaraðila sinna en þeir eru Saltver, Landsbankinn, Víkurás, Eignamiðlun Suðurnesja, Fasteignasalan Stuðlaberg, Tannlæknastofa Kristínar Erlu, Tannlæknastofa Kristínar Geirmunds, Ráðhúskaffi og Bílrúðuþjónustan.
Dansararnir frá Danskompaní. F.v. Sonja, Ingibjörg, Díana, Sóley, Jórunn, Elma og Júlía.