Sverrir Þór tekur við Grindvíkingum
Sverrir Þór Sverrisson hefur náð samkomulagi við Grindvíkinga og mun stýra Íslandsmeisturunum í úrvalsdeild karla í körfubolta á næstu leiktíð. Gert er ráð fyrir því að endanlega verði gengið frá ráðningunni á næstu dögum. Þetta staðfesti Sverrir í samtali við Karfan.is í gær og sagði tækifærið of spennandi til að hafna.
,,Þetta var of flott og spennandi tækifæri til að hafna og tala nú ekki um þegar þeir hafa orðið Íslandsmeistarar. Kröfurnar verða væntanlega ekkert minni við það," sagði Sverrir Þór og viðurkenndi að það væri erfitt að yfirgefa hópinn í Njarðvík en hann gerði kvennalið félagsins að Íslands- og bikarmeisturum á nýliðnu tímabili.
,,Það var skemmtilegt að þjálfa þennan hóp og virkilegur metnaður í þessum stelpum. Nú gefst frábært tækifæri fyrir einhvern áhugasaman að koma í Njarðvík og halda áfram þessu starfi og ég vona að góður aðili bíði hér handan við hornið," sagði Sverrir.
,,Njarðvíkurliðið er að byrja sem alvöru kvennalið og veturinn í vetur á bara eftir að efla þær í framhaldinu. Það var öflugt fólk í kringum starfið í kvennaráðinu og það hefur verið gaman að starfa með þeim og vissulega toppurinn að taka þetta tvöfal," sagði Sverrir sem nú sest í þjálfarastól í úrvalsdeild karla í fyrsta sinn.
Karfan.is