Sverrir Þór: „Skil sáttur við Keflavík”
Sverrir Þór Sverrisson mun leika með Njarðvíkingum í
„Ég átti góð ár með Keflavík og varð Íslandsmeistari með þeim þrisvar sinnum í röð. Ég er 32 ára og mér fannst kominn tími til þess að breyta um umhverfi og hjá Njarðvík fer ég einnig inn í yngri flokka starfið þar sem sonur minn er að æfa,” sagði Sverrir.
Sverrir var með 7,3 stig að meðaltali í leik hjá Keflavík á síðustu leiktíð en hann er á meðal grimmustu varnarmanna deildarinnar og hefur oft leikið marga flinka sóknarbakverði grátt. Sverrir lék með Njarðvíkingum árin 1995-1997 og er því staðháttum í Ljónagryfjunni að góðu kunnur og segir kröfurnar þar á bæ vera nákvæmlega þær sömu og í Keflavík.
„Sama hvort um er að ræða, Njarðvík eða Keflavík, þá hugsa menn alltaf um að fara alla leið. Hjá Njarðvík eru gríðarlega sterkir einstaklingar en það er ekki komin endanleg mynd á hópinn, hverjir verði áfram og hverjir bætist við. Ég hef samt fulla trú á því að Njarðvíkurliðið verði með sterkt lið á næstu leiktíð og mun berjast um alla titlana sem verða í boði.”
Óhætt er að segja að um óvænta uppákomu sé að ræða þar sem það þykir ávallt töluverðum tíðindum sæta þegar leikmenn fara á milli erkifjendanna í Njarðvík og Keflavík. Bæði lið hafa nánast einokað Íslandsmeistaratitilinn síðustu 20 ár og ávallt er beðið með mikilli eftirvæntingu eftir rimmum þessara liða.
„Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem ég hef spilað og starfað með í Keflavík og áhorfendum fyrir góðan stuðning og þá sérstaklega trommusveitinni sem hefur staðið sig gríðarlega vel, ég skil sáttur við Keflavík” sagði Sverrir Þór, verðandi leikmaður Deildarmeistara Njarðvíkur.