Sverrir Þór leitar að nýjum útlendingi í meistaralið Keflavíkur
Bandaríski leikmaðurinn Ariana Moorer sem lék með meistaraliði Keflavíkur í körfubolta kvenna á síðustu keppnstíð kemur ekki aftur til liðsins. Hún hefur samið við lið í Grikklandi.
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkurstúlkna, staðfesti þetta og sagði einnig að hafin væri leit að öflugum leikmanni í hennar stað. Eins og fram hefur komið munu Keflvíkingar halda öllum sínum íslensku leikmönnum sem léku með liðinu síðasta vetur.
Karfan.is greindi frá því að Carmen Tyson-Thomas sem lék síðast með Njarðvíkurstúlkum hafi samið við lið Borgnesinga. Njarðvíkingar sögðu upp samningi sínum við Carmen áður en leiktíðin var úti vegna samskiptaörðugleika en hún var öflug á vellinum með 37 stig að meðaltali í leik. Skallagrímsstelpur léku við Keflavík í bikarúrslitum og í undanúrslitum Domino’s deildarinnar.