Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sverrir Þór: Getum enn látið rætast úr tímabilinu
Fimmtudagur 15. mars 2007 kl. 10:22

Sverrir Þór: Getum enn látið rætast úr tímabilinu

Keflavík mætir Snæfell í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í Iceland Express deild karla og fer fyrsta viðureign liðanna fram í Stykkishólmi í kvöld kl. 19:15 þar sem Snæfellingar hafa heimavallarréttinn. Sverrir Þór Sverrisson, bakvörður hjá Keflavík segir að nú sé allt eftir sem skipti máli í mótinu og að Keflavík þurfi á góðum stuðningi að halda í kvöld.

 

,,Við erum nokkrir leikmenn í Keflavíkurliðinu sem höfum verið að spila töluvert meira í síðustu leikjum en við höfum verið að gera í vetur,” sagði Sverrir Þór en Keflvíkingar hafa misst þá Arnar Frey Jónsson og Tony Harris í meiðsli en þrátt fyrir meiðslin verður Tony á leikmannaskýrslu í kvöld. ,,Það er ólíklegt að Tony komi inn á en hann verður í búning og vonandi getur hann hjálpað okkur. Það er auðveldara að spila meiddur en æfa meiddur og það þekkja þeir sem hafa á annað borð verið einhvern tíma í íþróttum,” sagði Sverrir sem gert hefur 7,3 stig að meðaltali í leik fyrir Keflavík í deildarkeppninni.

 

,,Það er vissulega hugur í okkur og nú er mótið rétt að byrja og allt eftir sem skiptir máli. Við getum enn látið rætast úr tímabilinu hjá okkur og byrjum með því að vinna í kvöld. Þetta er sennilega erfiðasti útivöllurinn á landinu en við höfum spilað marga hörkuleiki við Snæfell og það verður engin breyting á því í kvöld. Við þurfum að hitta á góðan leik til að leggja þá,” sagði Sverrir og hvetur Keflvíkinga til að fjölmenna í Hólminn í kvöld.

 

,,Þegar illa gengur þá þarf á sem mestum stuðningi að halda, ekki bara þegar allt gengur eins og í sögu. Við vitum að traustustu stuðningsmennirnir mæta í kvöld. Þetta verður fín áskorun fyrir okkur,” sagði Sverrir og var engan bilbug á honum að finna.

 

Snæfell vann báða deildarleikina gegn Keflavík í vetur, þann fyrri í Stykkishólmi og lauk honum 80-67 Snæfell í vil og þann seinni vann Snæfell í Keflavík og höfðu þar sinn fyrsta sigur í Sláturhúsinu í sögu félagsins. Þeim leik lauk með 81-86 sigri Snæfellinga og því verður leikur liðanna í kvöld þriðja tilraun Keflvíkinga í vetur til þess að leggja leikmenn Geofs Kotila að velli.

 

[email protected]  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024