Sverrir Þór besti þjálfarinn og Craion besti leikmaður
- Suðurnesjamenn sigursælir í uppgjöri seinni umferðar Dominos-deildarinnar
Lið seinni umferðarinnar í Dominos-deild karla í körfuknattleik var kunngjört í dag á blaðamannafundi fyrir úrslitakeppnina sem framundan er næstu vikurnar.
Tveir leikmenn úr liðum á Suðurnesjum voru valdir í lið seinni umferðarinnar en það eru þeir Elvar Már Friðriksson úr Njarðvík og Michael Craion hjá Keflavík. Njarðvíkingurinn Guðmundur Jónsson var einnig valinn í liðið en hann leikur með Þór Þorlákshöfn.
Michael Craion var valinn besti leikmaðurinn í seinni umferðinni. Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari deildarmeistara Grindavíkur, var valinn besti þjálfarinn og Þorleifur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur, var valinn dugnaðarforkurinn. Suðurnesjamenn gerðu það því gott í seinni umferðinni.
Úrslitakeppni karla hefst annað kvöld en þá fer Keflavík í heimsókn í Ásgarð og leikur þar gegn bikarmeisturum Stjörnunnar. Liðin urðu í 5. og 4. sæti deildarinnar og má búast við hörku viðureign.
Á föstudag leika hin Suðurnesjaliðin tvö. Deildarmeistarar Grindavíkur leika gegn Skallagrími og Njarðvík fer til Stykkishólms og mætir þar Snæfelli. Spennandi tímar framundan fyrir íslenska körfuboltaáhugamenn.
Lið seinni umferðarinnar í Dominos-deild karla:
Justin Shouse · Stjarnan
Elvar Már Friðriksson · Njarðvík
Guðmundur Jónsson · Þór Þorlákshöfn
Kristófer Acox · KR
Michael Craion · Keflavík
Besti leikmaður seinni umferðar:
Michael Craion · Keflavík
Besti þjálfari seinni umferðar:
Sverrir Þór Sverrisson · Grindavík
Dugnaðarforkurinn:
Þorleifur Ólafsson · Grindavík