Sverrir með karla- og kvennalið UMFG
- Næstu tvö árin
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Grindavíkur í Dominos-deild karla í körfubolta, hefur framlengt samning sinn við liðið en hann mun einnig þjálfa kvennalið Grindavíkur.
„Samningurinn við Sverri átti að renna út í sumar en hann er búinn að skrifa undir nýjan tveggja ára samning. Það er frágengið að hann þjálfar bæði karla- og kvennaliðið næstu tvö árin,“ segir Lórenz Óli Ólason, stjórnarmaður í kkd. Grindavíkur, við Fréttablaðið.
Jón Halldór Eðvaldsson hætti störfum hjá kvennaliðinu fyrir skömmu en liðið olli nokkrum vonbrigðum og var í fallbaráttu ásamt Njarðvík.
Eftir eitt ár með karlaliðið hefur Sverrir landað tveimur stórum titlum og freistar þess að ná í Íslandsbikarinn í þriðja sinn í röð til Grindavíkur. Þegar Sverrir þjálfaði kvennalið Njarðvíkur á sínum tíma vann liðið Íslands- og bikartitil undir hans stjórn