Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Sverrir hefur trú á mér“
Laugardagur 18. október 2014 kl. 12:26

„Sverrir hefur trú á mér“

-segir María Ben sem stefnir á alla titla með Grindvíkingum

Grindvíkingar hafa farið vel af stað í Domino’s deild kvenna í körfubolta. Þær unnu fyrstu tvo leiki sína en töpuðu svo gegn sterku liði Hauka. Grindvíkingar virka í fantaformi undir handleiðslu hins sigursæla Sverris Þórs Sverrissonar. Hin 25 ára gamla María Ben Erlingsdóttir er ein af þeim leikmönnum sem koma vel undan sumri hjá þeim gulklæddu. María var dugleg að æfa í sumar ásamt liðsfélögum sínum. Hún tók rækilega á því í ræktinni auk þess sem hún æfði vel grunnatriðin í körfuboltanum. „Maður þarf að vinna í þeim líka eins og öðru,“ segir hún. Auk þess að æfa vel undir handleiðslu einkaþjálfara æfði María að talsvert mikið með landsliðinu. Sumarfríið hjá Maríu var því aðeins rétt tæplega vika þetta árið.

Grindvíkingar sterkari en í fyrra

„Ég tel okkur vera sterkari en í fyrra. Núna er þetta ekki eins nýtt fyrir okkur eins og þá. Nú þekkjum við inn á hver aðra og allt er að smella betur saman. Við erum talsvert ferskari,“ segir María. Grindvíkingar hafa endurheimt hinn frábæra leikmann, Petrúnellu Skúladóttur, úr barneignarleyfi. Erlendi leikmaðurinn, Rachel Tecca, virðist sterk og liðið hefur einnig á ungum og efnilegum leikmönnum að skipa. Auk þess er besti íslenski leikmaður síðari ára, Pálína Gunnlaugsdóttir, enn innan raða liðsins. Það má því passlega reikna með Grindvíkingum í toppbaráttunni. „Við stefnum á alla titla og ég tel okkur hafa alla burði til þess. Það verður þó ekki auðvelt þar sem þetta er jöfn deild með sterkum liðum.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hugurinn reikar út annað slagið

María segir að spilamennska liðsins sé að verða betri með hverjum leik undir þjálfarans Sverris Þórs, sem sankað hefur að sér titlum á undanförnum árum. María þekkir vel til Sverris en hann hefur þjálfað hana í landsliðinu. „Sverrir nær sérstaklega vel til mín. Hann hefur mikla trú á mér og við það eykst sjálfsstraustið. Það hjálpar alveg helling.“

María hefur fengið nasaþefinn af atvinnumennsku í körfuboltanum en hún lék með Saint Gratien í Frakklandi. Auk þess lék hún í fjögur ár í háskóla í Bandaríkjunum. „Hugurinn reikar út annað slagið. Það var gaman að prófa að spila í Frakklandi. Mér líður rosalega vel heima núna, hérna í Grindavík. Ef það kemur tækifæri þá væri ég alveg opin að skoða það.“