Sveindís undir smásjánni í Svíþjóð
Mikill áhugi er á Sveindísi Jane Jónsdóttur, knattspyrnukonunni mögnuðu af Suðurnesjum, fyrir leik Svía og Íslendinga sem fram fer á morgun í Svíþjóð.
Leikurinn er liður í undankeppni EM en fyrri leik Íslands og Svíþjóðar lauk með eftirminnilegu 1:1 jafntefli á Laugardalsvelli þar sem Ísland skoraði eftir langt innkast Sveindísar.
Á fréttavefnum Fotbolti.net er haft eftir Gylfa Sigurðssyni, umboðsmanni, að landsliðskonurnar Sveindís Jane Jónsdóttir og Karolína Lea Vilhjálmsdóttir séu undir smásjá félaga í Svíþjóð og Noregi. Þær leika báðar með Breiðabliki í Pepsi Max-deild kvenna en Sveindís Jane er á láni frá Keflavík.
„Það var smá áhugi fyrir 1:1 jafnteflið gegn Svíum en eftir það varð áhuginn mikill," er haft eftir Gylfa á Fotbolti.net.