Sveindís Jane valin maður leiksins gegn Belgum
Sveindís Jane Jónsdóttir var valin maður leiksins eftir fyrsta leik Íslands á Evrópumóti kvenna á Englandi.
Ísland lék í gær sinn fyrsta leik í Evrópumóti kvenna þegar liðið mætti Belgíu í Manchester. Það voru Íslendingar sem voru sterkari aðilinn í leiknum og eftir um hálftíma leik fengu Íslendingar gullið tækifæri til að ná forystu þegar Íslandi var dæmd vítaspyrna. Berglind Björg Þorvaldsdóttir fór á punktinn en spyrnan frá henni var ekki góð og markvörður Belga átti ekki í teljandi vandræðum með að verja. Gott tækifæri þar farið í súginn.
Berglind bætti fyrir vítaspyrnuna snemma í seinni hálfleik þegar hún kom Íslandi í forystu upp úr hornspyrnu (50'), boltinn barst út úr teig Belga eftir hornið þar sem Karólína Lea Vilhjálmsdóttir átti góða fyrirgjöf sem rataði á kollinn á Berglindi og hún skallaði í mark Belga.
Leikmenn Belgíu gáfust þó ekki upp og á 67. mínútu jöfnuðu þær með marki úr vítaspyrnu. Fleiri urðu mörkin ekki og frekar svekkjandi fyrir Ísland að landa ekki sigri en engu síður góð frammistaða hjá liðinu.
Keflvíkingurinn Sveindís Jane setti mark sitt á leikinn þótt ekki hafi henni tekist að skora. Þessi ótrúlega knattspyrnukona sýndi snilli sína og kom vörn Belga ítrekað í vandræði með hraða sínum og krafti. Margar úr íslenska liðinu áttu mjög góðan leik en það var Sveindís Jane sem var valin maður leiksins í gær.