Sveindís Jane Þýskalandsmeistari
Keflvíkingurinn Sveindís Jane Jónsdóttir varð Þýskalandsmeistari með liði sínu, Wolfsburg, í gær þegar Sveindís og liðsfélagar hennar unnu stórsigur á útivelli (1:10) þegar þær mættu Jena sem situr í neðsta sæti deildarinnar.
Enn er ein umferð eftir en Wolfsburg hafði eins stigs forskot á helstu keppinauta sína, Bayern Munchen, um meistaratitilinn fyrir leiki helgarinnar. Sveindís hefur staðið sig vel með liðinu á sínu fyrsta ári í þýsku deildinni. Hún var í byrjunarliði og það tók hana ekki langan tíma að setja mark sitt á leikinn en á áttundu mínútu átti hún góðan sprett upp hægri kantinn, lék inn í teig og sendi knöttinn inn í markteig Jena, beint fyrir fæturna á Ewa Pajor sem þurfti aðeins að stýra boltanum rétta leið í netið.
Sveindís var aftur á ferðinni tveimur mínútum síðar (10’) og skoraði þá sjálf af öryggi eftir að hafa fengið góða sendingu inn fyrir vörnina. Áfram héldu hörmungarnar að dynja yfir Jena og leikmenn Wolfsburg röðuðu inn mörkunum. Það var ekki fyrr en á 79. mínútu, sjö mörkum undir, að Jena náði að svara fyrir sig með marki en Wolfsburg bætti þremur mörkum við á síðustu tíu mínútunum og tryggðu sér titilinn með stórsigri, 1:10.