Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Svakastuð á sundmóti
Mánudagur 10. maí 2004 kl. 12:35

Svakastuð á sundmóti

Sundkrakkarnir frá ÍRB fóru um helgina í vel heppnaða keppnisferð til Hvammstanga þar sem þau tóku þau þátt í Fjölskyldumóti Húna, en keppendur voru alls 255 frá 11 félögum. Keppendur voru á aldrinum 8 til 16 ára og gekk keppnishald vel fyrir sig þar sem allir skemmtu sér konunglega í veðurblíðunni.

Lið ÍRB sendi alla yngri flokka sína til keppni að frátöldum krökkunum í afrekshópi félagsins og var árangurinn mjög góður. Liðið vann til langflestra verðlauna og sagði Klemenz Sæmundsson, formaður sunddeildar Keflavíkur, að keppendur ÍRB hefðu margir verið að bæta sig. Markverðast þótti samt afrek Gunnars Arnarsonar sem var 2/10 frá sveinameti í 100m bringu.

Krakkarnir sneru heim á sunnudeginum eftir frábæra helgi og barst Víkurfréttum m.a. tölvupóstur þar sem ánægð móðir vill skila þakklæti til þjálfaranna og fararstjóranna.

„Þetta var fyrsta mót minnar 10 ára dóttur og hvað hún var glöð og ánægð með helgina. Að fara í fyrsta skipti að heiman á mót er mikil upplifun. 
Íþróttabandalag Reykjanesbæjar er að gera góða hluti.Takk kærlega fyrir. Kveðja Elín Gunnarsdóttir.“

Næsta verkefni ÍRB er Sparisjóðsmótið sem sunddeild Keflavíkur stendur fyrir ásamt Sparisjóði Keflavíkur þann 22. maí.
Mótið fer fram í Sundmiðstöðinni í Keflavík og er búist við rúmlega 100 keppendum á aldrinum 7 til 12 ára frá um 10 félögum.

Mynd: Liðsmenn ÍRB á móti í vetur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024