Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Súrt tap hjá Grindavík í baráttuleik
Guðjón Pétur Lýðsson skildi ekkert í ákvörðun dómarans að dæma ekki víti. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 1. júlí 2023 kl. 13:24

Súrt tap hjá Grindavík í baráttuleik

Grindvíkingar voru að vonum svekktir eftir tap fyrir Þrótti Reykjavík í Lengjudeild karla í knattspyrnu í gær. Með tapinu dragast Grindvíkingar aftur úr í toppbaráttunni en þeir sitja í fjórða sæti með fjórtán stig, næstir eru Skagamenn með sautján í þriðja sæti og Fjölnir í öðru sæti með átján stig. Afturelding vermir toppinn með 23 stig.

Það vantaði talsvert upp á frammistöðu Grindvíkinga í gær. Gestirnir komust yfir á 7. mínútu en Símon Logi Thasapong jafnaði metin skömmu síðar (10').

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Símon Logi fór illa með ákjósanlegt færi rétt áður en blásið var til loka fyrri hálfleiks þegar Guðjón Pétur Lýðsson sendi góðan bolta inn fyrir vörn Þróttar, þar var Símon einn á móti markmanni en skaut framhjá.

Símon Logi svekktur út í sjálfan sig eftir að hafa mistekist að koma Grindavík í forystu.

Grindvíkingar mættu aðeins ákveðnari til seinni hálfleiks og snemma kom upp vafasamt atriði sem hefði getað haft áhrif á gang mála. Grindavík sótti og Marko Vardic sendi boltann fyrir markið sem barst til Guðjóns Péturs en varnarmaður Þróttar fer aftan í Guðjón án þess að nokkuð væri dæmt. Frá mínum bæjardyrum séð var um víti að ræða en dómaranum yfirsást það.

Víti? Dæmi hver fyrir sig.

Þróttur dró sig aftar á völlinn í seinni hálfleik og börðust fyrir fengnu stigi en eftir því sem Grindavík pressaði ofar opnaðist fyrir skyndisóknir gestanna. Þeir nýttu sér það þegar þeir komust inn í sendingu, sendu fyrir markið þar sem Ágúst Karel Magnússon var aleinn og yfirgefinn á fjær og hamraði boltann í netið (67').

Sigurmarkið.

Grindvíkingar reyndu að pressa og komust í nokkur álitleg hálffæri en að sama skapi hefðu Þróttarar hæglega getað aukið forystuna. Lokaniðurstöður 2:1 fyrir Þrótti og frammistaða Grindvíkinga vonbrigði.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og tók meðfylgjandi myndir sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.

Grindavík - Þróttur R. (1:2) | Lengjudeild karla 30. júní 2023