Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sundmenn ÍRB í landsliðsverkefnum
Mánudagur 22. júlí 2013 kl. 08:41

Sundmenn ÍRB í landsliðsverkefnum

– Þröstur Bjarnason með brons á Norðurlandameistaramóti æskunnar

Það má með sanni segja að sundmenn ÍRB hafi verið á faraldsfæti undanfarna daga. Sjö sundmenn ÍRB hafa verið að synda í landsliðsverkefnum bæði hérlendis og erlendis og er þetta góður lokapunktur á sundárinu hjá ÍRB.

NMÆ – Norðurlandameistaramót æskunnar í Reykjavík – Þröstur og Eydís Ósk
Norðurlandameistaramót æskunnar var í ár haldið í Reykjavík.
Þrír sundmenn ÍRB voru valdir til þess að keppa fyrir Íslands hönd, Þröstur Bjarnason, Eydís Ósk Kolbeinsdóttir og Sylwia Sienkiewicz. Því miður gat Sylwia ekki keppt þar sem hún var ekki á landinu.
Hápunkturinn á mótinu fyrir ÍRB var þegar Þröstur vann brons í 1500 m skriðsundi og bætti tíma sinn um rúmlega 6 sek og bætti með því opna Keflavíkurmetið í karlaflokki. Hann bætti svo líka tímana sína í 200 skrið, 400 skrið og í 400 fjór.
Eydís Ósk, sem er enn aðeins 12 ára, lærði heilmikið á þessu fyrsta móti sem fulltrúi Íslands. Hún synti mjög vel í boðsundinu og bætti boðsundtímann sinn um 4 sek, hún bætti sig um 1 sek í 100m flugsundi og var aðeins nokkrar sek frá sínum besta tíma í bæði 400 fjór og 800 skrið sem hún náði inn á mótið á fyrir aðeins mánuði.
Boðssundsveit Íslands sem bæði Þröstur og Eydís Ósk voru í vann svo brons í 4x200m skriðsund boðsundi þar sem allir íslensku krakkarnir syntu mjög vel.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

EMU – Evrópumeistaramót unglinga í Póllandi – Ólöf Edda og Íris Ósk
Það var frá upphafi ljóst að EMU yrði lærdómsrík reynsla fyrir hið unga íslenska lið. Sundmennirnir fóru á mótið með smá möguleika á að komast í undanúrslit en þar sem bestu greinar þeirra flestra voru á fyrsta degi er líklegt að byrjunarstress hafi haft einhver áhrif á árangurinn. Í liðinu voru frá ÍRB Ólöf Edda Eðvarðsdóttir og Íris Ósk Hilmarsdóttir.
Hápunktur mótsins fyrir sundmenn ÍRB var bæting Ólafar Eddu á tíma sínum í 200 m bringusundi en hún bætti nærri tíma sinn um u.þ.b. sekúndu og náði besta tíma í þessari grein í fyrsta sinn í nærri tvö ár. Önnur sund voru mjög nálægt bestu tímum en eftir fyrsta daginn krafðist það mjög mikillar bætingar á tíma að komast í undanúrslit.
Mótið var ágætlega árangursríkt fyrir þessa ungu sundmenn sem án efa hefur brugðið í brún við að sjá hve sterk samkeppnin er í Evrópu. Íris Ósk og Ólöf Edda nutu ferðarinnar og segja að þær hafi lært mikið á mótinu.

Eyof – Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Hollandi – Baldvin, Sunneva Dögg og Svanfríður
Þrír sundmenn frá ÍRB fóru á þetta mót en það voru þau Baldvin Sigmarsson, Sunneva Dögg Friðriksdóttir og Svanfríður Steingrímsdótttir.
Sunneva Dögg keppti í 400 og 800 m skriðsundi. Besta sundið hennar var 400 skrið það sem hún bætti tíma sinn um 5 sek. Í 800m skriðsundi bætti hún sig um 4 sek.
Baldvin bætti sig um 4 sek í 400 fjór á fyrsta degi mótsins og bætti með því opna Keflavíkurmetið í karlaflokki. Honum gekk einnig vel á síðasta deginum og bætti hann sig um 2 sek í 200 fjórsundi. Baldvin keppti einnig í 200m flugsundi og var hann þar á nánast sama tíma og hann átti.
Svanfríður var svo óheppin að fá kvef þegar hún var nýkomin á hátíðina. Hún lenti í vandræðum í 200 m bringusundi og missti andann en þó hún sýndi mikinn keppnisanda og kláraði sundið þrátt fyrir að hafa þurft að stoppa var tíminn ógildur. Daginn eftir synti hún í 100m bringusundi og þó hún væri enn veik náði hún að vera innan við hálfri sek frá besta tíma sínum.

Sundmönnum frá ÍRB fer jafn og þétt fjölgandi í landsliðsverkefnum á vegum SSÍ. Allir sundmennirnir eru nú að öðlast mikilvæga reynslu sem þeir geta nýtt í keppnum framtíðarinnar.