Sundkappi með fullkomnunaráráttu
Stefán Elías Berman er hálfkanadískur, fæddur í Kanada en flutti þriggja ára til Íslands og um tíu ára aldurinn til Keflavíkur. Hann er mikill keppnismaður og keppir í sundi fyrir hönd ÍRB [Íþróttabandalags Reykjanesbæjar]. Þrátt fyrir stífar æfingar alla daga útskrifaðist Stefán sem stúdent í síðustu viku og náði jafnframt þeim merka áfanga að dúxa. Víkurfréttir ræddu við þennan unga afreksmann um sundið og námið.
Byrjaði seint í sundi
„Haustið 2018, fjórtán eða fimmtán ára gamall, byrjaði ég að æfa sund með ÍRB. Þá byrjaði Eddi [Eðvarð Þór Eðvarðsson] að þjálfa mig og núna æfi ég alla daga vikunnar,“ segir Stefán sem þjálfar einnig yngri iðkendur hjá félaginu.
Er ekki svolítið seint að byrja fjórtán ára að æfa sund?
„Jú, allir þessir bestu sem ég er að keppa við hafa verið að æfa frá því að þeir voru fimm ára. Þannig að þeir hafa svona tíu ára forskot á mig. Ég hef samt náð ágætis árangri í sundinu og þótt ég hafi ekki ennþá fengið að taka þátt í landsliðsverkefnum þá hef ég alltaf verið að stefna að því. Ég er alltaf að þokast nær og nær,“ segir Stefán sem segist ekkert vera á leiðinni að fara að hætta að synda.
Hver er þín sterkasta hlið í sundinu?
„Það er skriðsund. Ég er þekktur fyrir að keppa bara í 100 og 200 metra skriðsundi. Mér finnst ég hafa mesta möguleika í skriðsundinu.“
Hvað ertu svo að þjálfa oft?
„Ég þjálfa sex sinnum í viku, er með tvo hópa. Þetta eru tuttugu til þrjátíu börn sem ég þjálfa samhliða mínum æfingum. Sjálfur æfi ég einu sinni til tvisvar á dag, alla daga. Flesta daga mæti ég á morgunæfingu fyrir skólann og svo aftur seinni partinn.“
Myndi ekki segja að ég væri góður námsmaður
Stefán útskrifaðist sem stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja í síðustu viku en samhliða stífum æfingum og sundþjálfun hefur hann náð frábærum árangri sem námsmaður og dúxaði í lokaprófunum.
Hver er galdurinn á bak við þetta, var þetta ekkert mál?
„Ég átti ekki von á því að dúxa. Ég vissi að það voru margir aðrir með góðar einkunnir en mig hefur alltaf langað að dúxa, ég lít svolítið á þetta sem keppni.
Ég myndi ekki segja að ég sé góður námsmaður vegna þess að það tekur mig lengri tíma en aðra að læra. Ég þarf að setja rosalega mikinn tíma til að undirbúa mig fyrir eins og líffræðipróf eða íslenskupróf, það eina sem ég myndi segja að ég sé góður í er stærðfræði. Öllu hinum fögunum þurfti ég að vinna fyrir en ég gerði það af því að ég hugsaði að ég þyrfti að fá tíu, keppnin dreif mig áfram.“
Þannig að þú myndir segja að þú hefðir mikið keppnisskap.
„Já, ég set mér markmið og gef mig hundrað prósent í að ná þeim.“
Myndirðu segja að sundið hafi hjálpað þér í náminu? Að aginn sem þú hefur tileinkað þér hafi hjálpað þér í gegnum þetta?
„Alveg örugglega – að vera í rútínu hjálpaði mér örugglega. Ég fór á morgunæfingu og svo nýtti ég tímann eftir æfinguna til að læra fram að skóla. Svo nýtti ég tímann á milli skóla og æfinga seinni partinn líka í námið. Líka kvöldin.
Það er alltaf svo mikið að gera í sundinu og maður lærir að skipuleggja tímann sinn, maður þarf að gera það,“ segir Stefán sem er nítján ára en hefur samt náð betri tökum á að skipuleggja sig en flestir. Hann segir að sundþjálfararnir hans, þeir Eddi og Steindór [Gunnarsson], hafi hjálpað honum mikið í gegnum tíðina og hann sé þeim afar þakklátur. „Þeir eru svo miklu meira en bara þjálfarar, þeir eru vinir og félagar.“
Ekki sjálfgefið að halda beint í háskólanám
Nú ertu búinn að klára stúdentinn, hvað sérðu fyrir þér að taki við?
„Mér finnst, út frá því hversu vel mér hafi gengið í námi, að augljóslega eigi leiðin að liggja beinustu leið í háskóla. Fara að læra verkfræði af því ég er fínn í stærðfræði og eðlisfræði. Af því að ég hef mikinn áhuga á því og finnst það mjög skemmtilegt – en það er eitthvað sem fær mig til að hika. Ég er ekki alveg tilbúinn að gefast upp á sundinu, ég hef ekki ennþá náð landsliðslágmarki og mig langar virkilega að taka þátt í einhverju landsliðsverkefni. Það er svo margt sem mig langar að gera í sundinu áður en ég hætti, svo ég er ekki alveg tilbúinn að hætta.
Ég er með svo mikla fullkomnunaráráttu að ef ég fer í háskóla þá vil ég standa mig vel þar, ef ég fer í sundið þá vil ég gera það vel. Það er svo erfitt að gera bæði í einu vel. Það er það sem var erfiðast í framhaldskólanum, að ná tíu í prófum, æfa eins og brjálæðingur og á sama tíma ná átta tíma svefni. Það var rosalega erfitt að púsla því saman. Það var mjög oft sem ég þurfti að fórna svefninum. Var að sofa minna til að læra en samt að mæta á allar æfingar, hélt mig við rútínuna. Þannig að ef ég held áfram í námi vil ég einbeita mér að því og ekki láta sundið trufla.“
Hefurðu skoðað að fara erlendis í nám út á námsstyrk?
„Já, ég hef skoðað það og hef fengið boð frá skóla í fyrstu deild í Bandaríkjunum. Flestir hafa farið til Bandaríkjanna á námsstyrk en það er ekkert að frétta af þessu fólki, allavega er sundið ekki nógu gott. Það eru kannski góðir skólar en sundið virðist svolítið sitja á hakanum.
Miðað við þá leið sem aðrir hafa farið þá er það ekki sú leið sem ég vil fara. Þetta er fjögurra ára nám og þótt maður sé á góðum námsstyrk er þetta fokdýrt. Ef ég ætla í meira nám get alveg eins farið í þriggja ára nám hér heima, það er töluvert ódýrara. Jafnvel þótt fólk sé að fara á 50–60% styrk er það að borga fáránlega mikið fyrir námið. Mér finnst það ekki þess virði þegar sundið er heldur ekkert sérstakt.“
Finnst þér vera mikil pressa á þig að halda áfram í námi af því að þér hefur gengið svona vel í skóla?
„Já, mér finnst vera mikil pressa. Það eru mjög margir að benda mér á að fara í háskóla og nýta þetta svokallaða „talent“ sem ég hef í námið. Mér líður svolítið eins og ég muni valda öllum vonbrigðum ef ég fer ekki beint í háskóla. Áframhaldandi nám er auðvitað meiri trygging fyrir framtíðina, sundið er ekki að fara að tryggja neitt. Það er enginn peningur í íþróttinni eða neitt þannig,“ sagði Stefán að lokum en hans bíður nú vandasamt val um hver verði hans næstu skref.