Sundfólkið stóð sig vel
Sundfólk ÍRB vann til fimm Íslandsmeistaratitla um helgina, jafnframt vann það til fjögurra unglingameistaratitla og tveir liðsmenn náðu inn í verkefni sumarsins, NÆM og EMU. Þrenn aldursflokkamet í flokknum 13–15 ára voru slegin af yngri karla boðsundsveit ÍRB.
Eva Margrét Falsdóttir varð þrefaldur Íslandsmeistari í kvennaflokki, hún sigraði í 200 metra bringusundi, 400 metra fjórsundi og 200 metra fjórsundi.
Guðmundur Leo Rafnsson varð tvöfaldur Íslandsmeistari í karlaflokki, hann sigraði 100 metra og 200 metra baksund. Í 200 metra baksundi náði hann lágmarki á Evrópumeistaramót unglinga með afar góðu sundi. Guðmundur Leo varð jafnframt þrefaldur Íslandsmeistari unglinga eftir úrslit í undanrásunum. Þar varð hann unglingameistari í 50, 100 og 200 metra baksundi.
Ástrós Lovísa Hauksdóttir tryggði sér þátttökurétt á Norðurlandamóti æskunnar með flottum sundum í 100 og 200 metra baksundi.
Sunneva Bergmann Ásbjörnsdóttir varð Íslandsmeistari unglinga í 400 metra fjórsundi.
Sundfólk ÍRB vann fjöldamörg verðlaun á mótinu og margir voru að bæta sína bestu tíma.