Sundfólk ÍRB vann 7 titla í dag
ÍRB náði stórglæsilegum árangri á öðrum keppnisdegi Innanhússmeistaramóts Íslands í sundi sem fer fram þessa dagana í Vestmannaeyjum. 7 gullverðlaun féllu þeim í skaut auk tveggja silfurverðlauna og þriggja bronsverðlauna.
Engum ætti að koma á óvart að Örn Arnarson lét mikið að sér kveða í dag og vann hann til þriggja gullverðlauna í einstaklingsgreinum. Verðlaunin fékk hann í 50m baksundi, 200m baksundi og 100 m flugsundi.
Erla Dögg Haraldsdóttir sigraði í 100m bringusundi og setti í leiðinni nýtt stúlknamet á tímanum 1:11,62. ÍRB vann þrefalt í þeirri grein því að Íris Edda Heimisdóttir hafnaði í öðru sæti og Helena Ósk Ívarsdóttir í því þriðja.
Birkir Már Jónsson sigraði í 200m skriðsundi og Guðni Emilsson nældi sér í bronsverðlaun þegar hann setti persónulegt met í 100 m. bringusundi og synti á tímanum 1:07,49.
Hilmar Pétur Sigurðsson bætti sig mikið og vann silfurverðlaun í 400m fjórsundi og Díana Ósk Halldórsdóttir lenti í þriðja sæti í 50m baksundi.
Þá sigruðu boðsundssveitir karla og kvenna með glæsibrag í 4*100m fjórsundi og toppuðu frábæran dag þar sem Íslandsmeistaratitlarnir eru orðnir 12 samtals.
Í fyrra vann ÍRB 16 titla þannig að á morgun eiga þau tækifæri á að bæta þann góða árangur. Hægt er að fylgjast náið með framvindu mála á sundsamband.is.
Myndir teknar af heimasíðu Sundfélags ÍBV