Sundfólk ÍRB fær landæfingaaðstöðu
Ný aðstaða til æfinga fyrir sundfólk ÍRB var opnuð sl. föstudag. Hún er á neðri hæð Sundmiðstöðvar Keflavíkur og þar getur sundfólkið nú stundað „land-æfingar“ eins og þær eru kallaðar en það eru líkams- og styrktaræfingar.
Plássið sem aðstaðan er í var áður ekki nýtt en nú er búið að koma upp ágætis æfingaaðstöðu sem mun nýtast sundfólkinu þegar það er ekki ofan í lauginni. Sigurbjörg Róbertsdóttir, formaður sunddeildarinnar, þakkaði aðilum sem komu að framkvæmdunum og sagði þetta koma sínu fólki vel. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, flutti einnig stutta tölu og þakkaði sundfólkinu og aðstandendum fyrir að vera bæjarfélaginu til sóma í mörg ár.
Að lokinni opnunarathöfn á æfingaaðstöðunni hófst Landsbankamótið í sundi en þar spreytti sundfólk af yngri kynslóðinni sig, frá 8 ára aldri, og var að alla helgina.