Suðurnesjaslagur um Íslandsmeistaratitilinn
Keflvíkingar og Grindvíkingar mætast í kvöld klukkan 19:15 í Sláturhúsinu, í fyrsta leik liðanna um Íslandsmeistaratitil kvenna. Víkurfréttir höfðu samband við Önnu Maríu Sveinsdóttur, leikmann Keflvíkinga og Svandísi Sigurðardóttur ,leikmann Grindavíkur sem báðar hafa átt gott tímabil fyrir sín lið. Báðum við þær að meta einvígið og spurðum þær hvernig liðin haga undirbúning sínum fyrir leikina sem eru framundan.
Anna María Sveinsdóttir, leikmaður Keflavíkur:
Þetta leggst ljómandi vel í mig við vitum hvað til þarf og hvað þarf að gera til að vinna einvígið. Þetta eru svipuð lið að styrkleika, með góða kana og frábæra breidd, þannig að ég held að dagsformið eigi eftir að ráða úrslitum. Við eigum eftir að koma vel undirbúnar í leikinn en undirbúningur okkar hefur verið svipaður og fyrir hvern annan leik, við æfðum hefðbundið í páskafríinu, eflaust fengu einhverjar sér páskaegg en það ætti ekki að koma að sök. Svo högum við undirbúning fyrir næsta leik miðað við leikinn á undan og endurmetum þau mál ef þarf.
Svandís Sigurðardóttir, leikmaður Grindvíkinga:
Mér líst mjög vel á þetta og er orðin hrikalega spennt, við erum náttúrulega búnar að bíða í 10 góða daga þannig að það er kominn tími á að fara að spila og sýna aftur hvað við getum. Það er allt annar andi í liðinu núna og við erum að skemmta okkur. Páskafríið held ég að hafi engin áhrif, við tókum góðar æfingar og fengum góða hvíld inn á milli og svo er auðvitað alls ekki slæmt að fá lengri tíma til að venjast Ritu Williams. Undirbúningurinn hjá okkur breytist ekki mikið en við spáum kannski meira í hvernig við ætlum okkur að spila vörn og sókn gegn þeim en við einbeitum okkur aðallega að okkar leik. Ég held að það lið sem leggur meira á sig og sýnir meiri baráttu vinni einvígið þar sem liðin eru mjög jöfn að styrkleika.
VF-Mynd-Úr leik liðanna í vetur