Suðurnesjaslagur í vændum
Grindvíkingar kláruðu Þórsara og mæta Njarðvík
Nú er ljóst að Grindvíkingar munu leika gegn Njarðvíkingum í undanúrslitum úrslitakeppni Domino's deildar karla í körfubolta. Íslands- og bikarmeistararnir frá Grindavík unnu í kvöld glæsilegan útisigur gegn Þórsurum í Þorlákshöfn með 89 stigum gegn 75 og kláruðu rimmuna 3-1.
Ekki var mikið skorað í fyrri háflleik en þegar úrslitakeppnin stendur sem hæst eru varnarleikur og barátta í lykilhlutverki. Grindvíkingar leiddu 33-39 í hálfleik. Þeir gulklæddu voru svo áfram með yfirhöndina og gerðu endanlega út um leikinn í síðasta fjórðung, þar sem þeir léku frábærlega.
Grindvíkingar voru að fá flott framlag frá mörgum leikmönnum en þeir Lewis Clinch og Sigurður „ökuþór“ Þorsteinsson voru manna bestir í kvöld. Lewis var með næstum þrennu, 18 stig, 11 fráköst og 9 stoðsendingar. Sigurður var svo með 24 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar og var ekki svo ýkja langt frá þrennunni sá stóri.
Það verða því Njarðvík og Grindavík sem mæta annað hvort KR eða Stjörnunni í úrslitum þetta árið en spennandi verður að fylgjast með slag Suðurnesjaliðanna sem hefst á föstudag.
Grindavík: Sigurður Gunnar Þorsteinsson 24/9 fráköst/6 stoðsendingar/5 varin skot, Earnest Lewis Clinch Jr. 18/11 fráköst/9 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 14/5 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 13/7 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 10/6 fráköst, Kjartan Helgi Steinþórsson 5, Daníel Guðni Guðmundsson 3/4 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 2/6 fráköst, Jens Valgeir Óskarsson 0, Hinrik Guðbjartsson 0, Hilmir Kristjánsson 0, Magnús Már Ellertsson 0.
Þór Þ.: Mike Cook Jr. 25/7 fráköst, Nemanja Sovic 15/15 fráköst, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 12/16 fráköst/5 varin skot, Baldur Þór Ragnarsson 10, Tómas Heiðar Tómasson 9/6 fráköst/5 stoðsendingar/3 varin skot, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 2, Vilhjálmur Atli Björnsson 2, Matthías Orri Elíasson 0, Jón Jökull Þráinsson 0, Halldór Garðar Hermannsson 0, Emil Karel Einarsson 0, Davíð Arnar Ágústsson 0.